E.coli-hópsmit á leikskóla

Sóttvarnalæknir beinir því til foreldra barna á leikskólanum sem eru …
Sóttvarnalæknir beinir því til foreldra barna á leikskólanum sem eru með möguleg einkenni að fara á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjögur börn sem öll eru á sama leikskóla í Reykjavík hafa greinst með E.coli-sýkingu. Fleiri börn af leikskólanum eru komin á bráðadeild Landspítalans og beðið er staðfestingar á hvort þau hafi einnig smitast. Öllum leikskólanum hefur verið lokað vegna þessa.

Fyrr í kvöld fengu foreldrar barna á leikskólanum Mánagarði, sem er við stúdentagarðana við Eggertsgötu, að vita að upp hefði komið E.coli-smit hjá fjórum börnum.

Jafnframt voru foreldrar hvattir til að leita á bráðamóttökuna ef vart yrði um niðurgang eða hita hjá börnunum. Er málið komið inn á borð sóttvarnalæknis.

Stjórnendur leikskólans ákváðu í framhaldinu að loka leikskólanum í dag, miðvikudag.

Að minnsta kosti níu börn

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur bráðamóttakan tekið á móti að minnsta kosti níu börnum undanfarna tvo daga, með möguleg einkenni.

Á vef Matvælastofnunar má lesa nánar um E.coli-sýkingar, en þær má oftast rekja til saurmengaðra matvæla eða vatns.

Hópsýkingar eru ekki algengar, en árið 2019 kom upp slíkt tilfelli þegar 24 einstaklingar, þar af 22 börn, smituðust af E.coli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka