Fagnar úrskurði Félagsdóms: Verkefnið er stórt

Magnús Þór Jónsson í Landsrétti í morgun.
Magnús Þór Jónsson í Landsrétti í morgun. mbl.is/Hákon

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, er að vonum ánægður með úrskurð Félagsdóms í morgun um að verkfallsboðun kennara sé lögmæt.

Fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag.

Fögnum niðurstöðunni

„Við töldum okkar hafa farið að öllum þeim lögum og reglum sem gilda um vinnustöðvanir og höfum verið með skýran málflutning og markmið í langan tíma,“ segir Magnús Þór, sem ræddi við blaðamann í húsi Landsréttar þar sem úrskurður Félagsdóms var kveðinn upp.

„Við fögnum því að Félagsdómur hafi staðfest að við höfðum rétt fyrir okkur þar.“

Mikið ber á milli 

Spurður hvað taki núna við segir hann að betra hefði verið að verja tímanum í að tala saman en að það sé hluti af vinnudeilum að þær fari fyrir félagsdóm.

„Það er boðaður fundur klukkan 13 á eftir hjá ríkissáttasemjara. Við mætum bara þangað og leggjum af stað inn í verkefnið,“ segir Magnús Þór og nefnir að enn þá beri mikið á milli í kjaradeilunni.

„Það ber mikið á milli. Við erum að vísa í verkefni sem er búið að vera í gangi síðan 2016. Við horfum til þess að það samkomulag sem var gert þar um jöfnun lífeyrisréttinda og jöfnun launa sé verkefni sem við viljum vinna að.“

Ertu bjartsýnn á að deilan leysist í tæka tíð?

„Verkefnið er stórt en það er þannig í þessum málum að þegar menn setjast yfir hlutina þá stundum ganga þeir hraðar fyrir sig en maður reiknaði með. Við erum einbeitt og ætlum að komast langt í þessu og við sjáum hvað næstu dagar gefa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert