Kennarar vilja meira en milljón í laun

Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

„Við töldum okkur vera að gera hlutina á réttan hátt og nú hefur það verið staðfest sem er fagnaðarefni.“

Þetta sagði Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, við mbl.is eftir úrskurð Félagsdóms í morgun um að verkfallsboðun kennara sé lögmæt.

Málinu var stefnt til Félagsdóms sökum þess að Samband íslenskra sveitarfélaga taldi að sér hefði ekki gefist ráðrúm til þess að taka afstöðu til krafna Kennarasambands Íslands og aðildarfélaga þess áður en verkfallsaðgerðir voru boðaðar.

Fundur eftir hádegi

Fundað hefur verið boðaður í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara eftir hádegi í dag en viðræðum var frestað þar til úrskurður félagsdóms lægi fyrir.

„Nú setjumst við niður aftur þar sem fundur hefur verið boðaður eftir hádegi. Nú vindum við okkur í verkefnið,“ segir Mjöll.

Hún segir Kennarasambandið hafi verið með skýra sýn á að það þurfi að leiðrétta laun og jafna þau á milli markaða og það sé það verkefni sem þurfi að komast í og að fara í alvöru samtal við launagreiðendur.

Ber mikið á milli

„Það ber vissulega mikið á milli en kannski hafa hlutirnir eitthvað þokast áfram og ýmislegt verið skýrt í þessu samtali sem við erum búin að eiga síðustu daga og nú vonum við bara að við getum byggt ofan á það,“ segir Mjöll.

Hvernig er hljóðið í þínu fólki?

„Það er vissulega þungt hljóð í fólki vegna þess að skólaumræðan síðustu mánuði hefur ekki farið vel í fólk. Það upplifir að það sé vegið að störfum kennara. Þeir eru að gera sitt besta en eru störfum hlaðnir og hópurinn er ekkert kátur.“

Heyrir þú að kennarar séu að hugsa sinn gang og séu jafnvel að gefast upp?

„Við erum með hátt hlutfall af ófaglærðum við kennslustörf. Við heyrum af fólki sem er að segja upp störfum þessar vikurnar og það er breyting frá því sem var. Kennarar kláruðu alltaf skólaárið og hættu frekar á milli skólaára að sumri eða vori en nú er breytt landslag. Fólk er að hætta í auknum mæli og þá koma leiðbeinendur inn í staðinn sem er mjög þungt fyrir skólastarfið og eykur álagið og fólk verður uppgefnara,“ segir Mjöll.

Aðgerðir hefjast 29. október

Mjöll segir að grunnskólakennarar á landinu séu rúmlega fimm þúsund en spurð hverjar séu aðalkröfur kennara segir hún:

„Forgangskrafan er að það verði gengið frá einhverju samkomulagi um það hvernig menn ætli að takast á við þessa jöfnun launa á milli markaða. Þegar að það verkefni verður komið á rekspöl þá þurfum við að fara að ræða ýmislegt annað í okkar starfsumhverfi.“

Krafa Kennarasambands Íslands í viðræðunum við Samband íslenskra sveitarfélaga er að kjör félagsmanna verði sambærileg við sérfræðinga á almennum markaði.

„Við erum að tala um að grunnlaunin séu 730 til 740 þúsund okkar megin en losi um eina milljón að meðaltali hjá sérfræðingum á almennum markaði,“ segir Mjöll.

Verkfallsaðgerðir hafa verið samþykktar í ellefu skólum, fjórum grunnskólum, fjórum leikskólum, tveimur framhaldsskólum og einum tónlistarskóla. Aðgerðir í níu skólum hefjast 29. október, í tíunda skólanum 11. nóvember og í Garðaskóla 25. nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert