Konurnar þurfa ekki að vera edrú í Skjólinu

Konurnar koma oftar en ekki þreyttar í Skjólið og er …
Konurnar koma oftar en ekki þreyttar í Skjólið og er hvíldarherbergi fyrir hendi með þremur rúmum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki hægt að segja að til sé ein uppskrift að því hvernig fólk lendir í þessum aðstæðum.“

Þetta segir Rósa Björg Brynjarsdóttir umsjónarkona Skjólsins, en Skjólið er opið hús á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir konur sem glíma við heimilisleysi, búa við óöruggar aðstæður eða eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi.

Í Skjólinu er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og því er ætlað að vera öruggur samastaður sem konurnar geta sótt að degi til.

„Margir átta sig hreinlega ekki á því að það getur einhver glímt við nákvæmlega sama vanda og þessar konur. Kannski er einhver sem býr í næsta stigagangi við þig að glíma við nákvæmlega sama vímuefnavanda og kannski geðrænan vanda líka en vegna þess að viðkomandi á heimili er hann í raun betri en þær eða í öðrum flokki.“

Rósa og Una Sigrún Ástvaldsdóttir starfskona í Skjólinu gengu um húsakynnin með blaðamanni og ljósmyndara og fræddu þá um starfsemina. Inga Beck Jónsdóttir, starfsnemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, var með í för.

Rósa Björg Brynjarsdóttir og Una Sigrún Ástvaldsdóttir starfskonur í Skjólinu …
Rósa Björg Brynjarsdóttir og Una Sigrún Ástvaldsdóttir starfskonur í Skjólinu gengu um húsakynnin með blaðamanni og ljósmyndara og fræddu þá um starfsemina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfengisvandinn oft skaðlegri

Rósa segir algengt að fólk haldi að heimilislausar konur séu allt konur í vímuefnavanda og margir að þær sprauti sig allar um æð. Hún segir það af og frá og að hlutfall þeirra sem það gera nái kannski 35%.

„Þær glíma við alls konar annan vanda eins og til dæmis áfengisvanda, sem er oft miklu skaðlegri. Einnig geðrænan vanda. Margar þeirra hafa átt nokkuð gott líf en lenda síðan í einhverjum áföllum og missa tökin.“

Þegar konurnar koma í Skjólið fá þær úthlutað skáp. Þær geta geymt í honum það sem þær dröslast með í pokum eða töskum yfir allan daginn, sem er þeirra búslóð hreinlega, segir Rósa. Þær geta bæði geymt dótið í skápunum frá degi til dags og nýtt þá sem geymslu yfir lengri tíma.

Rósa segir að miðað sé við að losa skápana ef á þarf að halda, ekkert hafi heyrst í konunum í a.m.k. tvær vikur og ekki sé vitað hvar þær eru niðurkomnar. Una bætir því við að alltaf sé fyrst reynt að finna út hvar þær séu eða koma upplýsingum til þeirra.

„Þær eru líka mjög duglegar að láta okkur vita; „heyrðu, ég er inni á spítala“, og þá gefum við þeim slaka. Eins ef þær eru komnar í meðferð eða kannski komnar inn á Hólmsheiði, þá erum við ekki að henda dótinu þeirra,“ segir Rósa.

Konurnar fá úthlutað skáp í Skjólinu. Þar geta þær geymt …
Konurnar fá úthlutað skáp í Skjólinu. Þar geta þær geymt það sem er í raun þeirra búslóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svefn, næring og hreinlæti

Í Skjólinu er unnið með grunnþarfir einstaklingsins; svefn, næringu og hreinlæti. Aðstaða er ágæt fyrir konurnar til að fara í sturtu og fá þær öll hreinsiefni, handklæði eða hvað sem þær þurfa á staðnum.

„Stundum eigum við líka til rakvélar ef þær vantar og stundum eigum við tannbursta og tannkrem og svona þetta sem skiptir hvað mestu máli,“ segir Rósa.

Salernis- og snyrtiaðstaða er með ágætum. Þvottahús er til staðar þar sem konurnar geta sett í þvottavél og þurrkara og bera þær sjálfar ábyrgð á sínum þvotti. Þær geta einnig komið blautum flíkum fyrir í þurrkskáp. Það er hugsað fyrir öllu í Skjólinu.

Í Skjólinu er einblínt á grunnþarfir einstaklingsins; svefn, næringu og …
Í Skjólinu er einblínt á grunnþarfir einstaklingsins; svefn, næringu og hreinlæti. Aðstaða er ágæt fyrir konurnar til að fara í sturtu og fá þær öll hreinsiefni, handklæði eða hvað sem þær þurfa á staðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá geta konurnar hlaðið símana sína í hleðsludokkum sem eru á þremur stöðum í húsinu. Ef þær eru í mikilli þörf fyrir yfirhafnir, húfur eða trefla til að halda á sér hita er reynt að útvega slíkt. Sem og hversdagsfatnað.

„Við erum ekki með hælaskó, kjóla eða silkiskyrtur. Við erum meira að vinna með joggingbuxur, þægilega boli og hlýjar peysur,“ segja starfskonurnar. Fólk kemur reglulega með föt. „Það er svolítið skemmtilegt að við vorum nýbúnar að segja upphátt að okkur vantaði fatnað og þá voru þrír sem komu með fatnað í gær. Við auglýstum ekkert. Ræddum það bara okkar á milli,“ segir Una og Rósa bætir því við að þar hafi algóritminn verið að verki.

Aldrei annað en góðvild

Einstaklingar og fyrirtæki eru einkar hliðholl Skjólinu. Nefnir Rósa bæði Mjólkursamsöluna og Ölgerðina í því sambandi og svo sérstaklega sjómann úti í bæ sem kemur reglulega með sjófrystan fisk. Fólkið í hverfinu kemur einnig reglulega færandi hendi með mat og fatnað og einhverjir hafa meira að segja komið með pottaplöntur. Segja þær stöllur að aldrei hafi þær fundið neitt annað en góðvild frá nærsamfélaginu.

Þær leiða blaðamann og ljósmyndara inn í viðtalsherbergi þar sem sálgæslu er sinnt og hægt að setjast niður og spjalla en báðar eru þær með diplómagráðu í sálgæslu. Rósa segir að starfsemi Skjólsins hverfist mikið í kringum samveru með konunum og í spjalli um daginn og veginn. Það snúist ekki endilega um vandann.

„Þær koma hingað til að hvíla sig og til að kúpla sig út úr vandanum,“ segir hún.

Lögregla og lögfræðingar

Þá segir hún fagaðila nota viðtalsherbergið með sínum skjólstæðingum. Það geti til dæmis verið félagsráðgjafar, ráðgjafar úr vettvangs- og ráðgjafarteymi, lögreglan sem komi og taki skýrslur og lögfræðingar kvennanna.

Una bætir því við að aðstandendur hafi einnig nýtt viðtalsherbergið til að geta átt samtal við konurnar í einrúmi. Rósa segir gott að aðstandendur geti fengið tilfinningu fyrir því hvar konurnar séu á daginn og í hvaða aðstæðum. Segir hún marga aðstandendur upplifa létti við að vita af þeim í Skjólinu.

Gott hvíldarherbergi er fyrir hendi með þremur rúmum og rúmgóð setustofa með hægindastólum og sófum. Það er einstaklega heimilislegt í Skjólinu og hreinlæti er þar til fyrirmyndar.

Rósa segir þær reyna að gera vistarverurnar kósí og huggulegar og unnið sé með að stemningin sé almennt róleg í húsinu. Konunum finnst þægilegt að sitja í stofunni, sem Rósa segir að sé hjarta húsakynnanna. Þær sitji og prjóni, lesi bækur og fleira. Ákveðið var strax í upphafi að hafa ekki sjónvarp í Skjólinu og segir Una að ef það væri til staðar hefði ástandið líklega þróast í fjarstýringaeinvígi. Enginn hafi svo mikið sem spurt út í sjónvarp.

Inn af stofunni er tómstundaherbergi með spilum, taflborði og saumavél. Þá eru tölvur til reiðu sem konurnar nota bæði til afþreyingar og til að vinna í sínum persónulegu málum. „Til að komast inn á sín svæði á þessum helstu stofnunum,“ segir Rósa.

Skjólið er opnað klukkan 11 á daginn og hádegismatur borinn fram milli 11 og 12. Maturinn er hafður frammi en konurnar borða ekki endilega allar á sama tíma. „Þær borða alls ekkert alltaf allar. Suma daga erum við jafnvel með fullt borð af mat og það er kannski bara ein af átta sem vill borða,“ segir Rósa.

Inn af stofunni er tómstundaherbergi með spilum, taflborði og saumavél. …
Inn af stofunni er tómstundaherbergi með spilum, taflborði og saumavél. Þá eru tölvur til reiðu sem konurnar nota bæði til afþreyingar og til að vinna í sínum persónulegu málum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Una segir að boðið sé upp á dæmigerðan heimilismat og Rósa segir að einstaka sinnum sé matur keyptur annars staðar. Nefna þær veitingastaðina Saffran og Dominos í því sambandi. Konurnar taka virkan þátt í að ákveða hvað á að vera í matinn að sögn Unu og stundum aðstoða þær við matseldina.

Una segir hrökkbrauð í boði allan daginn og þá sé yfirleitt til smurostur að ógleymdu súkkulaði sem þær segja bráðnauðsynlegt enda séu konurnar oft í mikilli sykurþörf. Þá er alltaf í boði kaffi, vatn og djús.

Með Naloxone og jónupappír

Starfskonurnar ganga um með mittisveski með helstu nauðsynjum og björgum sem grípa gæti þurft til. Þar er m.a. að finna síma sem er einnig dyrabjalla, lyklakippu með öllum lyklum sem á þarf að halda, andlitsdúk, lyfið Naloxone (notað til að draga úr óæskilegum áhrifum ópíóíða), jónupappír og kveikjara.

Una segir að eftir miðjan mánuð beri þær oft á sér sígarettur, sem þær segja mjög gott verkfæri til að ná tökum á ástandi sem kann að skapast.

Konurnar mega vera undir áhrifum hvaða vímuefna sem er í Skjólinu. Þær mega ekki drekka áfengi inni og þurfa að geyma það í skápum sínum. Þær mega drekka úti í reykherbergi og þar mega þær einnig reykja hvað sem er.

Reykherbergið skýlir fyrir veðri og vindum en er ekki upphitað. Rósa segir ekki nógu hagkvæma leið hafa fundist til að hita upp rýmið en búið sé að skeggræða vandann við margan sérfræðinginn.

Starfskonurnar ganga um með mittisveski með helstu nauðsynjum og björgum …
Starfskonurnar ganga um með mittisveski með helstu nauðsynjum og björgum sem grípa gæti þurft til. Þar er m.a. að finna síma sem er einnig dyrabjalla, lyklakippu með öllum lyklum sem á þarf að halda, andlitsdúk, lyfið Naloxone (notað til að draga úr óæskilegum áhrifum ópíóíða), jónupappír og kveikjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldrei mánudagur

Aðspurð segir Rósa ósætti koma upp við og við. Fólk verði ósammála eða pirrað hvert á öðru en heppilegt sé að húsnæðið sé nógu stórt. Una segist upplifa konurnar koma tættar, þær tvístrist í allar áttir innan húss og nái sér niður en fari svo allar saman út í sígó. Þá segir hún þær geta haldið fjarlægð ef þær vilja.

Inga hefur fylgst með í Skjólinu í fjórar vikur en hún er starfsnemi í félagsráðgjöf. Þykir henni mikið til starfseminnar koma. „Þetta er bara geggjað starf,“ segir hún.

Heimilislausa konan sem rætt var við í Morgunblaðinu í gær lætur einnig vel af Skjólinu. Sagðist hún reyna að koma sem oftast en í Skjólinu fái hún m.a. almennilegan mat. Hún sagði þá vont að lokað væri allar helgar.

Það er blaðmanni augljóst að starfskonurnar eru í Skjólinu af hreinni hugsjón. Þær segja starfið mjög fjölbreytt og gefandi og engir tveir dagar séu eins. „Það er í raun aldrei mánudagur.“

Skjólinu er ætlað að vera öruggur samastaður.
Skjólinu er ætlað að vera öruggur samastaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka