Sprengingin í Leifsstöð: „Pakkað í salernispappír í vatnskassa“

Atvikið gerðist í júlí.
Atvikið gerðist í júlí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íhlutur sem sprakk á Leifsstöð í júlí með þeim afleiðingum að einn slasaðist lítillega var „neyðarblyspenni“ sem hafði verið komið fyrir í vatnskassa á klósetti. Lögreglan hefur hætt rannsókn málsins. 

Þetta segir Bjarney Annels­dótt­ir, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um, í sam­tali við mbl.is.

Atvikið átti sér stað 18. júlí en sá sem slasaðist var starfsmaður flugvallarins sem rak aug­un í neyðarblysið á salerninu.

„Rannsókn málsins er hætt og gerandi er óþekktur. Rannsókn tæknideildarinnar bendir til að þetta sé neyðarblyspenni,“ segir Bjarney.

Upphaflega talið vera víti

Upphaflega var hlutnum lýst sem svokölluðu víti en rannsókn tæknideildar hefur leitt í ljós að líklega var um neyðarblys að ræða.

Bjarney segir að enginn búnaður hafi verið tengdur við neyðarblysið og því sé ekki grunur um að því hafi verið komið fyrir til að valda tjóni af ásetningi.

Fargaði blysinu fyrir öryggisleit

„Það þarf í raun að toga í stykkið til þess að virkja þetta en það hefur krækst eitthvað í þegar viðkomandi tekur þetta upp,“ segir Bjarney og bætir við:

„Þessu var pakkað í salernispappír í vatnskassa.“

Lögreglan gerir ráð fyrir því að ferðamaður hafi áttað sig á því að hann væri með neyðarblysið á sér eftir komu á flugvöllinn og því losað sig við það áður en hann fór í öryggisleitina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert