Verkföll vofa yfir: „Þvílíkur ómöguleiki“

Launakrafan er svo fjarstæðukennd að ekki er búið að reikna …
Launakrafan er svo fjarstæðukennd að ekki er búið að reikna út hversu mikill kostnaðurinn yrði fyrir sveitarfélögin, að sögn Ingu. Samsett mynd/Hari/Eggert

Ólíklegt er að verkföllum kennara verði afstýrt. Kennarar vilja fá yfir milljón krónur á mánuði í grunnlaun og Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að kennarar séu að krefjast um 49% launahækkunar.

Þetta segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við mbl.is.

Kennarasamband Íslands (KÍ) og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga funduðu í dag og á morgun verður fundað á ný með ríkissáttasemjara.

Mjöll Matth­ías­dótt­ir, formaður Fé­lags grunn­skóla­kenn­ara, sagði í samtali við mbl.is í dag að krafan væri sú að laun væru sam­bæri­leg við sér­fræðinga á al­menn­um markaði, sem væri rúmlega milljón krónur á mánuði.

Hafa ekki lagt fram formlega kröfugerð

„Það ber mjög mikið á milli,“ segir Inga Rún um stöðuna í kjaraviðræðunum.

Inga segir að kennarar hafi ekki lagt fram formlega kröfugerð og því hafi krafan meira og minna komið í ljós þegar Mjöll sagði við fjölmiðla að þau vildu grunnlaun upp á rúmlega milljón krónur á mánuði. 

Er hægt að verða við þessari kröfu?

„Þessi krafa, við verðmetum hana upp á sirka 49%,“ segir Inga og bætir við:

„Menn geta sett það í samhengi við aðra samninga sem við erum að gera við aðra okkar viðsemjendur og háskólahópa, þar sem menn eru að fá 3,2% á fyrsta árinu og 3,5% næstu þrjú ár á eftir. Þannig það er augljóst að það er stórt bil þarna,“ segir Inga.

Segir kröfurnar fjarstæðukenndar

Hún segir að það sé ekki bara hægt að horfa á launin í samanburði við almennan vinnumarkað. Hún bendir á aukin réttindi opinberra starfsmanna, meiri hlunnindi, meiri veikindarétt, að vinnutími sé mældur öðruvísi og betri orlofsrétt, svo dæmi séu nefnd.

„Það er ótal aðrir hlutir sem þarf að bera saman,“ segir Inga.

Eru þið búin að áætla gróflega hvað þessar launahækkanir myndu kosta íslensk sveitarfélög?

„Við þurfum ekkert að reikna það, þetta er þvílíkur ómöguleiki,“ svarar Inga.

Spurð hvort kostnaðurinn nemi hugsanlega hundruð milljónum króna segir Inga:

„Við höfum bara einfaldlega ekki slegið á það. Þetta er nýkomið fram og þetta er svo fjarstæðukennt að við höfum ekki verið að eyða tíma í það. En þetta eru alveg gríðarlegar fjárhæðir.“

Ólíklegt að það takist að semja í tæka tíð

Verkfallsaðgerðir hafa verið samþykkt­ar í ell­efu skól­um; fjór­um grunn­skól­um, fjór­um leik­skól­um, tveim­ur fram­halds­skól­um og ein­um tón­list­ar­skóla.

Verkföll eiga að hefjast þann 29. októ­ber næst­kom­andi. Inga telur ekki líklegt að búið verði að semja áður en verkfallsaðgerðir hefjast.

Telur þú að ykkur takist að semja áður en boðuð verkföll eiga að hefjast?

„Eins og staðan er núna finnst mér það auðvitað mjög ólíklegt. Við höldum áfram að tala saman og eins og ég segi þá er boðaður fundur hjá ríkissáttasemjara í fyrramálið klukkan 9. Við mætum þar og ræðum áfram við kennara. Við gerum allt sem við getum til þess að afstýra verkfalli en staðan er þung og mikið sem ber á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert