Vill bæjarútgerðir og þjóðnýta sjávarútveginn

Sósíalistaflokkurinn hyggst þjóðnýta sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi og leiðtoga flokksins hugnast vel að endurreisa bæjarútgerðir. Hún segir þó að enn eigi eftir að útfæra hina stóru efnahagsaðgerð.

Þetta kemur fram í leiðtogasamtali við Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, sem fer fyrir Sósíalistaflokki Íslands í yfirstandandi alþingiskosningum.

Ríkisvæðing atvinnuveganna

Í stefnu flokksins segir raunar að þjóðnýta eigi allan hagnað af auðlindum landsins og þegar hún er spurð nánar út í þessa stefnu kemur í ljós að það felur í sér að ríkisvæða alla atvinnugreinina.

Orðaskiptin um þetta atriði i stefnu Sósíalista, sem í síðustu viku mældust með 4,2% stuðning í nýjustu könnun Prósents sem unnin var fyrir Morgunblaðið, má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þau eru einnig rakin í textanum sem hér fylgir á eftir.

Óeðlilegt að stórfyrirtækin hagnist

Þið viljið í raun þjóðnýta auðlindirnar er það ekki rétt, þið viljið innkalla kvótann?

„Það er sko ekki eðlilegt að það séu stórfyrirtæki sem einhvern veginn eru að hagnast á auðlindum almennings. Við viljum koma þessu til almennings, það væri mjög eðlilegt.“

Þannig að þið viljið innkalla kvótann?

„Bara það sem almenningur er að kalla eftir, við viljum fara eftir því.“

Þið viljið semsagt innkalla kvótann frá sjávarútveginum og þið segið í yfirlýsingu ykkar að þið viljið þjóðnýta hagnaðinn af auðlindunum. Hvernig á þetta að fara fram? Þetta er stórmál af því að nú skapar eins og sjávarútvegurinn 300 milljarða tekjur fyrir þjóðarbúið á ári. Hvernig á að framkvæma þetta, þetta er mjög afgerandi stefna.

„Það er auðvitað margt í þessu og ég held að það sé mikilvægt að þjóðin komi svolítið að þessu og við höfum talað um fiskiþing. Við þurfum bara að fá svona samtal um þetta hvernig við sjáum fyrir okkur hvernig þetta verði gert því það er eðlilegt að almenningur fái í rauninni þennan arð af auðlindinni og það er ekki eðlilegt að það fari í vasa nokkurra stórfyrirtækja.“

Ef þið takið hagnaðinn af þessum sjávarútvegsfyrirtækjum hver mun leggja pening eða fjármagn inn í þessi fyrirtæki? Hver mun leggja í þá áhættu að byggja nýjan togara fyrir sjö til tíu milljarða ef hagnaðurinn fer allur inn í ríkissjóð?

„Við vitum alla vega að þessi leið hún er ekki að skila arðinum til almennings þannig að við þurfum að hugsa eitthvað nýtt...“

Ekki eitthvað nýtt. Þið eruð á leiðinni inn á þing. þið talið fyrir því að þjóðnýta stærsta atvinnuveg þjóðarinnar, kannski að undanskilinni ferðaþjónustunni. Hvernig ætlið þið að framkvæma það, hverjir eiga að byggja fiskiskipin ef þetta verður niðurstaðan?

Sósíalistar vilja þjóðnýta útgerðina. Meðal þeirra fyrirtækja sem starfa á …
Sósíalistar vilja þjóðnýta útgerðina. Meðal þeirra fyrirtækja sem starfa á því sviði eru Brim, Síldarvinnslan og Ísfélagið sem öll eru skráð á hlutabréfamarkað. mbl.is/Sigurður Bogi

Kallar eftir samtali fyrst

„Það fyrsta sem ég myndi vilja byrja á að gera er að hafa samtal, kalla alla að borðinu...“

Nei, þið eruð að segja að þið ætlið að þjóðnýta auðlindina. Það er niðurstaðan. Hver á að byggja fiskiskipin, ætlið þið að láta ríkissjóð byggja skipin? Á ríkið að eiga sjávarútvegsfyrirtækin?

„Mér finnst eðlilegt að við bara köllum alla að borðinu og tökum smá samtal um þetta. Mér finnst það eðlilegt.“

Sanna Magdalena er gestur Spursmála að þessu sinni.
Sanna Magdalena er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is

Endurreisn bæjarútgerða

Það er búið að eiga samtalið. Svo það sé alveg á hreinu. Eruð þið að leggja til að ríkið muni reka sjávarútvegsfyrirtækin, að þetta verði bæjarútgerðir eins og var á árum áður?

„Ég myndi vilja fá bæjarútgerð aftur, mér fyndist það bara mjög eðlilegt en eins og ég er að segja þá myndi ég ekki með einu pennastriki bara ákveða eitthvað núna. Það er eðlilegt að eitthvað samtal fari í gang, byggt á þessari stefnu.“

En þarf fólk ekki að vita ef það er að fara að kjósa ykkur á þing hverju þið munuð hrinda í framkvæmd?

„Byrja á samtalinu, út frá þessum stefnumarkmiðum.“

Viðtalið við Sönnu Magdalenu má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert