„Alls konar réttindi sem að eru betri okkar megin“

Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga funda hjá ríkissáttasemjara.
Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga funda hjá ríkissáttasemjara. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta eru tveir ólíkir launapakkar og það þarf að ræða allt innihaldið í hvorum fyrir sig.“

Þetta segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, um kröfu kennara um að fá laun í samræmi við meðallaun sérfræðinga á opinberum markaði.

Hún segir réttindi opinberra starfsmanna ólík réttindum starfsmanna á almennum markaði. Kennarar hafi ýmis kjör og réttindi sem séu ekki í boði á almennum vinnumarkaði.

Samningafundur milli Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga fer fram hjá ríkissáttasemjara í dag en náist samningar ekki hefjast verkföll í níu skólum 29. október, í tíunda skólanum 11. nóvember og í þeim ellefta 25. nóvember.

Meiri veikindaréttur og lengri orlofsréttur 

„Það er mjög margt sem greinir þarna að og alls konar réttindi sem eru betri okkar megin,“ segir Inga Rún.

„Kennarar hafa alveg gríðarlega mikið af umsömdum kjörum sem að verður þá kannski að horfa til líka ef við eigum að taka svona stór skref.“

Þar nefnir hún helst meiri veikindarétt kennara, lengri orlofsrétt, og yfirráð yfir eigin vinnutíma og vinnuskilum.

„Þetta er allt eitthvað sem má meta til verðmæta. Þannig við höfum verið að draga það fram að það er ekki bara hægt að segja að það sé launamunurinn og það muni engu öðru.“

Ólíklegt að samningar náist

Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, sagði í samtali við mbl.is í gær að krafan væri sú að laun væru sambærileg við sérfræðinga á almennum markaði, sem væri rúmlega milljón krónur á mánuði.

Formaður Kennarasambands Íslands, Magnús Þór Jónsson, dró þó eilítið í land í kvöldfréttum og sagði launahækkunarkröfu ekki liggja fyrir í krónutölu enn sem komið er.

Talið er ólíklegt að verkföllum kennara verði afstýrt í ljósi þess hve mikið ber á milli samningsaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert