Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar, leiðir lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi en hún hefur verið varaþingmaður flokksins áður.
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar var samþykktur á fundi kjördæmisráðs fyrr í kvöld.
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, er í öðru sæti en hann bauð sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2014.
Í þriðja sæti er Jóhanna Ösp Einarsdóttir, bóndi og oddviti í Reykhólahreppi, og fjórða sætið skipar Magnús Vignir Eðvaldsson, íþróttakennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra.
Flokkurinn fékk engan mann kjörinn á þing í kjördæminu í síðustu þingkosningum.
„Ég hlakka til kosningabaráttu sem ég held að verði snörp og kraftmikil. Nú förum við öll í bátana og sækjum sigurinn saman. En svo þetta gangi upp verðum við að sýna samstöðu, vera jákvæð, setja kassann út og tala hátt og snjallt fyrir áherslumálum okkar jafnaðarfólks. Þá er ég viss um að Ísland og íslenskt samfélag mun uppskera ríkulega,“ er haft eftir Örnu í tilkynningu á vefsíðu Samfylkingarinnar.
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi:
1. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar,
2. Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ,
3. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, bóndi og oddviti í Reykhólahreppi,
4. Magnús Vignir Eðvaldsson, íþróttakennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra,
5. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, forstöðumaður í Borgarnesi,
6. Garðar Svansson, fangavörður og bæjarfulltrúi í Grundarfirði,
7. Bryndís Kristín Þráinsdóttir Williams, verkefnastjóri á Sauðárkróki,
8. Gylfi Þór Gíslason, lögregluvarðstjóri á Vestfjörðum,
9. Líney Árnadóttir, starfsráðgjafi í Húnabyggð,
10. Guðrún Anna Finnbogadóttir, teymisstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu,
11. Stefán Sveinsson, sjómaður og smiður á Skagaströnd,
12. Bakir Anwar Nassar, starfsmaður Húsasmiðjunnar,
13. Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir, frístundaráðgjafi í Dalabyggð,
14. Guðjón Brjánsson, fyrrverandi alþingismaður.