Bjarni segir nýjum botni náð

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svarar Vísi fullum hálsi eftir að miðillinn hélt því ranglega fram að Bjarni hefði varað „við of mikilli blöndun kynþátta“ í nýjum hlaðvarpsþætti. 

Bjarni mætti í hlaðvarpið Ein Pæling þar sem útlendingamálin báru á góma. Í kjölfarið birtist frétt á Vísi undir fyrirsögninni: „Varar við of mikilli blöndun kynþátta“.

Bjarni gerði það aftur á móti aldrei í þættinum og hefur Vísir nú leiðrétt fréttina

Hér má sjá skjáskot af því hvernig fréttin leit út …
Hér má sjá skjáskot af því hvernig fréttin leit út áður en hún var leiðrétt. Skjáskot

Hefur þolað ýmislegt en botninum núna náð

„Ég hef mátt reyna ýmislegt þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun í gegnum tíðina, en hér var nýjum botni náð. Vísir hefur nú beðist afsökunar. Ég vona að allir sem mig þekkja viti að ég hef aldrei varað við blöndun kynþátta.

Sagan hefur séð ágætlega um að dæma þá sem hafa uppi slíkan málflutning, og það á að vera okkur öllum kappsmál að berjast gegn honum,“ skrifar Bjarni í færslu á Facebook. 

Hann segir að í viðtalinu hafi hann og þáttstjórnandinn, Þórarinn Hjartarson, rætt um alls konar mál eins og kosningarnar, Sjálfstæðisflokkinn, erlent vinnuafl, hælisleitendakerfið og margt fleira.

Mikilvægt að varðveita menninguna

„Við ræddum hælisleitendakerfið, sem því miður er í einhverjum tilfellum gagngert misnotað af skipulagðri glæpastarfsemi, og mikilvægar varnir gegn þeim glæpum,“ skrifar Bjarni. 

Hann kveðst hafa lagt áherslu á það að taka eigi vel á móti fólki í neyð, hjálpa því að koma sér fyrir og aðlagast samfélaginu.

„En að við þurfum á sama tíma að varðveita þá menningu og þau gildi sem gera okkur að einhverju fremsta samfélagi veraldar í lífskjörum, jafnrétti og tækifærum. Við það stend ég fullum fetum. Og það hefur sannarlega ekkert með kynþátt að gera,“ skrifar Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka