Götulokanir og vopnuð lögregla í næstu viku

Mikil öryggisgæsla verður á hinu lokaða svæði og munu lögreglumenn …
Mikil öryggisgæsla verður á hinu lokaða svæði og munu lögreglumenn sem sinna gæslu bera vopn líkt og þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins fór fram í maí í fyrra. AFP

Götulokanir verða í miðborg Reykjavíkur dagana 28.-31. október þar sem þing Norðurlandaráðs 2024 er nú haldið í borginni. Þá verður mikil öryggisgæsla á hinu lokaða svæði er þjóðarleiðtogar erlendra ríkja mæta og verða lögreglumenn sem sinna öryggisgæslu vopnaðir við störf sín.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Ráðhúsi Reykjavíkur lokað almenningi

Þar segir að í miðborg Reykjavíkur verði Vonarstræti lokað milli Lækjargötu og Suðurgötu. Templarasundi og Kirkjustræti frá Pósthússtræti verður einnig lokað, auk þess sem Tjarnargötu á milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis verður lokað.

Hér má sjá hvaða svæði verður lokað.
Hér má sjá hvaða svæði verður lokað. Ljósmynd/Lögreglan

Þingið fer fram á Alþingi og í Ráðhúsi Reykjavíkur undir yfirskriftinni „Friður og öryggi á norðurslóðum“ og verður ráðhúsið lokað almenningi frá laugardeginum 26. október til og með fimmtudeginum 31. október.

Þá verður bílastæðahúsi við ráðhúsið lokað fyrir allri umferð en Tjarnargata frá Skothúsvegi verður opin að Tjarnargötu 14, þar sem tvístefnuakstur verður um opna hlutann á Tjarnargötu.

Stærsti stjórnmálaviðburður ársins

Segir í tilkynningunni að bílastæðahúsinu verði lokað mánudaginn 28. október kl. 8:00 og götulokanir taka gildi á sama tíma. Lokunum verði svo aflétt á miðvikudeginum 30. október kl. 16:00.

Þá kemur fram að þing Norðurlandaráðs sé stærsti norræni stjórnmálaviðburðurinn á árinu en þar koma saman 87 þingmenn Norðurlandaráðs, forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar, samstarfsráðherrar Norðurlanda og ýmsir aðrir ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum. Að auki kemur fjöldi gesta frá löndum utan Norðurlanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert