Hótað því að dóttirin yrði vistuð í fangageymslu

mbl.is/Karítas

Faðir stúlku, sem var í neyðarvistun á meðferðarheimilinu Stuðlum þegar eldur kom þar upp á laugardaginn, segir að honum hafi verið settir þeir afarkostir að annað hvort tæki hann við henni inn á heimilið eða að hún yrði vistuð í fangaklefa. 

Hún var eitt af þeim börnum sem keyrð voru heim eftir brunann því önnur úrræði voru ekki til staðar fyrir þennan hóp. Foreldrarnir fengu lítinn sem engan fyrirvara til að taka á móti börnunum í mjög misjöfnu ástandi og tókst tveimur þeirra að strjúka strax eftir heimkomuna. Umrædd stúlka var þó ekki meðal þeirra.

Fyrst var farið með stúlkuna til móður sinnar sem treysti sér ekki til taka við henni og var þá haft samband við föðurinn, sem hafði ekki verið upplýstur um að eldur hefði komið upp á Stuðlum.

Neydd til að taka við henni

Stúlkan glímir við fjölþættan vanda, þar á meðal fíknivanda og á sögu um mjög erfiða og ofbeldisfulla hegðun. Faðir hennar treysti sér illa til að taka í móti henni og hafa inni á heimilinu í því ástandi sem hún var. Á heimilinu voru tvö yngri börn sem eru logandi hrædd við systur sína

Til stóð að dóttir hans yrði í 14 daga í neyðarvistun á Stuðlum, en hún hafði einungis verið þar í tvo sólarhringa þegar bruninn varð.

„Þá var henni bara hent heim til sín. Við vorum bara neydd til að taka við henni. Það var bara sagt að annað hvort kæmi hún til mín eða gisti í fangageymslu í Reykjavík,“ segir faðirinn í samtali við mbl.is. Hann vildi alls ekki stúlkan yrði færð í fangaklefa og tók því hinn valkostinn

mbl.is/Ólafur Árdal

Fékk tímabundið inn í einkareknu úrræði

Stúlkan hefur nú fengið tímabundið inni í einkareknu búsetuúrræði fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda.

Faðirinn veit hins vegar ekki hvert framhaldið verður og gerir allt eins ráð fyrir því að hún verði send aftur heim á næstu dögum, enda sé langur biðlisti eftir því að komast inn í búsetuúrræðið.

Bráðabirgðaaðstaða fyrir neyðarvistun hefur verið stúkuð af inni á meðferðardeild.
Bráðabirgðaaðstaða fyrir neyðarvistun hefur verið stúkuð af inni á meðferðardeild. mbl.is/Karítas

Verður að gera ráð fyrir því versta

Hann er mjög ósáttur við samskiptaleysi og seinagang í svörum barnaverndar. Hann segist ítrekað reynt að hafa samband við barnavernd um helgina en þar hafi verið fátt um svör. Hann hafi þurft að endurtaka sömu upplýsingarnar aftur og aftur við hvern starfsmanninn á fætur öðrum. Það hafi vantað fastan tengilið til að eiga samskipti við.

Þá gagnrýnir hann að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að eitthvað gæti komið upp á Stuðlum sem yrði til þess að færa þyrfti til skjólstæðinga í flýti. Það verði alltaf að gera ráð fyrir því versta með svo viðkvæman hóp af fólki.

Móðir 15 ára drengs sem tókst að strjúka eftir að hafa verið keyrður heim í kjölfar brunans, gagnrýndi einnig úrræðaleysið í samtali við mbl.is á mánudag. Drengurinn var týndur í tvo sólahringa áður en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu.

„Þau hefðu þurft að finna eitt­hvað úrræði fyr­ir börn­in strax. Það er ekki hægt að senda þau heim án nokk­urs und­ur­bún­ings. Það verður að vera eitt­hvað plan B ef eitt­hvað kem­ur upp á.“

17 ára piltur lést í brunanum.
17 ára piltur lést í brunanum. mbl.is/Karítas

Ákvarðanir teknar eftir bestu vitund

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs barna- og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumaður Stuðla, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að staðan hefði verið þannig á laug­ar­dags­morg­un að taka hefði þurft ákv­arðanir mjög hratt, þar sem börn­in voru í skjóli í stræt­is­vagni á lóðinni eft­ir brun­ann.

Ákvarðanir hafi verið tekn­ar eft­ir bestu vit­und á þess­um tíma­punkti og að all­ir hafi gert sitt besta til að koma öll­um í skjól.

Ólöf Ásta Farest­veit, for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu, sagðist í samtali við mbl.is, skilja gagnrýni foreldra en að starfsfólkið hafi metið það í samráði við barnavernd hverjir áttu að geta farið heim

„Þau börn voru send heim sem unnt var að senda heim. Heim­ili for­eldra eru oft­ast nær ör­uggt skjól. Hvort eitt­hvað hafi verið fyr­ir­séð eða ekki var erfitt að að segja til um á þeirri stundu og í þeim aðstæðum við vor­um í,“ sagði Ólöf.

Starfsemi meðferðarheimilisins er nú aftur komin yfir á Stuðla eftir að hafa verið tímabundið færð yfir á Vog í kjölfar brunans. Eldurinn kom upp í herbergi vistmanns í neyðarvistun og er sú álma gjörónýt. Viðgerð á rýminu mun taka einhverja mánuði en bráðabrigðaúrræði fyrir neyðarvistun hefur verið stúkað af inni á meðferðardeild. 17 ára piltur lést í brunanum.

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumaður …
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumaður Stuðla. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka