Lærði norska málfræði á hálftíma

„Við kynntumst þegar ég var að undirbúa sýningarferð með samíska …
„Við kynntumst þegar ég var að undirbúa sýningarferð með samíska leikhúsið til Suður-Asíu og hann tók að sér að skipuleggja ferðina,“ segir Haukur um eiginmann sinn, indverska ferðamálafrömuðinn Melroy Desylva. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er fæddur í Reykjavík, foreldrar mínir voru Gunnar J. Friðriksson, forstjóri sápugerðarinnar Friggjar sem afi minn stofnaði, og mamma var Elín Kaaber,“ segir Haukur Jón Gunnarsson, leikstjóri og fyrrverandi leikhússtjóri í Kautokeino, að öllum líkindum eina mannveran í heimi hér sem talar íslensku, japönsku og samísku jöfnum höndum. Blaðamaður tekur ábendingum um annað feginshendi gegn því að viðkomendur séu klárir í viðtal um stórmerkin.

Haukur átti eftir að gera heldur víðreist um sína daga, en við byrjum innst í víðáttumiklum hring og þar er það Vogahverfið sem uppfóstraði leikstjórann við sitt brjóst í hópi alls sjö systkina.

„Ég kynntist leikhúsi mjög snemma af því að frændi minn og guðfaðir var Gunnar Eyjólfsson leikari. Hann bauð mér í leikhús og fór með mig baksviðs og ég varð óskaplega hrifinn af leikhúsi, frá því ég sá fyrstu barnasýninguna,“ rifjar Haukur upp dreymnum rómi og greinir aðspurður frá því að þessi fyrsta barnasýning hafi verið Ferðin til tunglsins. „Ætli það hafi ekki verið 1955, ég hef verið fimm ára.“

Barnfóstruleysi skóp örlögin

Og það var einmitt þegar Haukur var fimm ára sem þau vatnaskil urðu sem mörkuðu alla hans framtíð í leikhúsi. Vindar fjarlægra Austurlanda blésu um ómótaðan áhrifagjarnan barnshugann. „Þá kom hérna japönsk sýning og var í Þjóðleikhúsinu, japanskur dansflokkur sem fór um allan heim og sýndi,“ segir nú þrautreyndur leikhúsmaðurinn frá, einum sjö áratugum síðar.

Haukur býr í Tromsø, hinni fögru Akureyri Noregs og höfuðstað nyrstu véa landsins, en er staddur í heimsókn á Íslandi þegar þetta spjall fer fram og segir því að hér hafi komið japönsk sýning.

„Guðlaugur Rósinkranz [þáverandi Þjóðleikhússtjóri] bauð þeim að sýna í Þjóðleikhúsinu og pabbi og mamma áttu miða og fóru með mig, þau höfðu ekki pössun fyrir mig,“ segir Haukur glettnislega og sá hörgull á barnfóstrum breytti lífi hans.

„Ég varð svona rosalega heillaður af þessari sýningu, það var bara einhver heimur sem opnaðist þarna fyrir mér sem ég bara vissi ekki að væri til, þessi hvítmáluðu andlit, þessar ótrúlegu hreyfingar og búningar. Ég fékk áráttu fyrir Japan þarna og byrjaði að safna öllu sem ég fann í blöðum, myndum og svoleiðis,“ segir leikhúsmaðurinn frá enda átti hann eftir að halda til Japans í nám.

Haukur ýkir ekki þegar hann segir af Japansáhuga sínum sem …
Haukur ýkir ekki þegar hann segir af Japansáhuga sínum sem vitraðist honum fyrir þá duttlunga örlaganna að foreldrar hans fengu ekki pössun fyrir hann þegar þau brugðu sér í Þjóðleikhúsið kvöld nokkurt. Ljósmynd/Aðsend

Að stíga fæti á japanska jörð

Árið sem hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, 1969, kom ekkert annað til greina en að halda til Japans, nema þar tungumálið og listina sem Haukur varð svo dolfallinn yfir sem barn í fylgd með Gunnari Eyjólfssyni guðföður sínum.

„Sú sterka upplifun að lenda á flugvellinum í Tókýó og stíga fæti á japanska jörð var engu lík,“ lýsir hann, sléttum 55 árum síðar, upplifunin enn fersk í huga hans. „Mig hafði dreymt um að læra japönsku og nema japanska leiklist sem ég hafði lesið mér mikið til um, þar eru tvær meginhefðir í leiklistinni, kabuki og svo noh-leikhúsið.“

Haukur hóf háskólanám eftir stíf inntökupróf og hafði náð japönskunni nokkuð vel á hálfu ári. „Það sem ég fékk mest út úr var að komast í kynni við einn aðalleikstjórann í kabuki-leikhúsinu, í gegnum hann fékk ég tilsögn í þessari grundvallarleiklistarhefð og fékk í raun mun meira út úr því en ég hefði fengið út úr bókum,“ segir Haukur og lætur vel af fleiri kennurum sínum í Japan sem hafi skilið mikið eftir sig.

„Allir mínir vinir voru japanskir, ég umgekkst útlendinga ekkert og talaði japönsku allan tímann. Þessa vini á ég enn þá og fer árlega til Japana að hitta þá, þannig held ég japönskunni minni við og tengslum við menninguna,“ segir hann frá og blaðamaður spyr hvernig Íslendingi hafi verið tekið á svo fjarlægum slóðum fyrir meira en hálfri öld.

„Það var mjög sérstakt, mér var til dæmis oft boðið í sjónvarpsviðtöl og fleira, það þótti mjög merkilegt að íslenskt ungmenni væri komið til Japans,“ svarar Haukur og kveðst aðspurður ekki vita til þess að aðrir Íslendingar hafi sótt nám í Japan á undan honum, margir hafi hins vegar komið á eftir.

Til Íslands með viðkomu í Hull

Náminu í Japan lauk með því að Haukur hélt til Evrópu á ný og nam þá við breska háskólann Hull University, „sem var með mjög góða leiklistardeild þá. Þar var nýstofnuð leiklistardeild með mjög góðum kennurum og kennsluaðstaðan þannig að við gátum sett upp sýningar, þetta var blanda af bóklegu og verklegu námi, sjónvarpsleikstjórn, dans og mjög fjölbreytt nám. Ég lagði þar áherslu á leikstjórn,“ segir Haukur sem lauk náminu í Hull árið 1975.

Þá skapaðist ákveðið millibilsástand þegar hann hélt til fósturjarðar sinnar á ný og starfaði sem aðstoðarleikstjóri við hlið Sveins Einarssonar í Þjóðleikhúsinu. „Það var mjög lærdómsríkt og svo fékk ég smám saman að setja upp sjálfur í atvinnuleikhúsunum,“ segir Haukur frá og kemur svo að einum vendipunktinum til í lífi sínu og þeir þá orðnir nokkrir frá því heimur japanska leikhússins opinberaðist honum árið 1955.

Ungur leikstjóri við störf í Þjóðleikhúsinu árið 1985 eins og …
Ungur leikstjóri við störf í Þjóðleikhúsinu árið 1985 eins og fatatískan og klippingin ljúga engu um. Ljósmynd/María Guðmundsdóttir

„Þá fékk ég tilboð um að koma til Þrándheims, það er 1978. Þar setti ég upp Mýs og menn eftir Steinbeck sem fékk mjög góða dóma. Þarna var ég farinn að hugsa sem svo að ég vildi komast út fyrir Ísland sem var orðið fullþröngt athafnasvæði,“ rifjar Haukur upp og mætir fullum skilningi blaðamanns í ljósi langrar búsetu og náms fyrst í Japan og svo innan sjálfs breska heimsveldisins þar sem eitt sinn var sagt að sólin settist aldrei – þegar nýlendustefna Breta var í algleymingi.

„Þegar þetta gekk svona vel í Þrándheimi ákvað ég að velja Noreg, en ég hafði líka verið að velta Danmörku og Svíþjóð fyrir mér,“ segir Haukur sem flutti til Óslóar árið 1980 en var þó með sýningar í nágrannalöndunum fyrrnefndu.

Að komast inn í þetta ekta samíska

Áratugur í Skandinavíu streymir hjá á fjölunum og árið 1990 er Haukur orðinn þrautreyndur leikstjóri og stígur skrefið til fulls, sækir um leikhússtjórastöðu hjá samíska leikhúsinu Beaivváš í Kautokeino sem auglýsti stöðuna lausa til umsóknar.

„Þetta var þá tiltölulega nýtt, þeir byrjuðu 1981, ég hafði séð til þeirra í sjónvarpi og var mjög spenntur fyrir þessu. Ég sá þarna möguleika á að kynnast aftur nýju tungumáli, nýju umhverfi og nýrri menningu. Mér fannst að þarna gæti ég notað eitthvað af því sem ég hafði komið með mér frá Japan og austurlensku leikhúsi,“ segir Haukur frá, en hann fékk starfið og hóf störf sem leikhússtjóri árið 1981.

Þetta hljóta nú að hafa verið viðbrigði, að fara alla leið norður til Kautokeino í Finnmerkurfylki þar sem mesta frost í Noregi hefur mælst, 50 gráður í mínus. Hvernig var upplifunin þrátt fyrir að vera Íslendingur?

„Veturnir eru kaldir en það eru miklar stillur þarna. Snjórinn kemur í októberlok og svo er bara hvítt og fallegt, það er óskaplega fallegt þarna og fannst ekkert flókið að vera þarna. Bara náttúran og umhverfið heilluðu mig og að komast inn í þetta ekta samíska,“ svarar Haukur og má kannski segja að þarna, árið 1991, hafi hann gerst eins konar áhuga-sami.

Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1969. Þá var förinni …
Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1969. Þá var förinni heitið beint til Japans í háskólanám sem hafði verið draumur Hauks frá barnæsku. Japönum þótti stórmerkilegt að þangað kæmi Íslendingur og veitti Haukur fjölmiðlaviðtöl af því tilefni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hafði grunnkunnáttu í samísku þegar ég hóf störf, þar sem ég kom þarna hálfu ári áður, staðan var auglýst með góðum fyrirvara,“ segir Haukur sem kveðst halda þeim tungumálum við sem hann hefur lært, þar á meðal samískunni en á þeim vettvangi heldur hann auðveldlega uppi samræðum þótt hann sé ekki eins reiprennandi og eftir árin í Kautokeino sem urðu sextán þegar upp var staðið. Blaðamaður áttar sig eftir stutta umhugsun á því að líklega þekkir hann bara eitt orð í samísku, oddasat, fréttir.

Þannig að norska hlýtur að vera aleinfaldasta mál sem þú hefur lært málfræðilega séð?

„Já, í rauninni,“ svarar Haukur og hlær dátt. „Ég kunni sænsku og dönsku þegar ég kom til Noregs og svo var mér gefin bók um norska málfræði á ensku. Ég fór og settist niður á Munch-safninu og las og á hálftíma var ég búinn að læra norska málfræði,“ segir Haukur frá.

Hann var leikhússtjóri og listrænn stjórnandi leikhússins í Kautokeino og bar ábyrgð á því að velja leikrit og starfsfólk. „Svo ég fékk færi á því að vera með í að forma þetta leikhús. Þegar ég kom þarna voru þeir að leita fyrir sér að stíl og ég kom þarna með mín japönsku áhrif og stíliseraði þetta eftir þeim og það varð eins konar stimpill fyrir Beaivváš,“ rifjar leikhússtjórinn fyrrverandi upp, leikhúsið varð þekkt fyrir stílhreinar sýningar sem virkuðu að hans mati fullkomlega í samspili við samíska þjóðsagnahefð og japanska strauma og stefnur.

Á vondum stað í Tromsø

„Ég var fyrst í sex ár í Kautokeino, þá sótti ég um í leikhúsinu í Tromsø,“ segir Haukur frá, en þegar hann kom fyrst til Kautokeino voru íbúarnir á svæðinu um 3.000. „Þetta var mjög sérstakt, sérstakur heimur, þarna er bara töluð samíska, um níutíu prósent íbúana eru Samar. Ég lenti mest í 42 stiga frosti,“ rifjar hann upp.

Haukur sýnir hefðbundinn japanskan dans enda leitun að þjóð sem …
Haukur sýnir hefðbundinn japanskan dans enda leitun að þjóð sem bindur sitt trúss eins kirfilega við hefðir og sú japanska. Ljósmynd/Aðsend

Sem fyrr segir býr Haukur enn þann dag í dag í Tromsø, en þegar hann kom þangað frá Kautokeino fannst honum hann ekki passa inn í leikhúslíf bæjarins, hann einhvern veginn fann sig ekki. „Vinnustaðurinn var ekki góður, mér leið ekki vel þar, en mér líkaði vel við bæinn, keypti mér íbúð þar og hef haldið mig þar,“ segir hann.

Hann starfaði við leikhúsið í Tromsø í fjögur ár áður en hann gafst upp og var í lausamennsku hingað og þangað um tíma á eftir. Það nægði leikstjóranum til að finna að Kautokeino var hans staður hvað atvinnuna snerti. „Ég fann að þar liggur hjarta mitt og fékk stöðuna aftur og var þá í níu ár,“ segir hann, svo árin í Kautokeino urðu hátt í tuttugu er upp var staðið.

Fólkið sem hættir aldrei

Svo því sé haldið til haga um forvitnilegt nafn er Kautokeino ekki samíska nafnið, á samísku heitir bærinn Guovdageaidnu sem hefur nokkrar merkingar, þar á meðal „um miðja vegu“, en lega Kautokeino er mitt á milli Alta í Noregi, Muonio í Finnlandi og Karesuando í Svíþjóð. Til forna lágu einnig vetrarvegir gegnum Kautokeino til Kvænangen, Lyngen og Nordreis. Þannig er nú það.

„Árið 2015 hætti ég og fór á eftirlaun, en ég hef alltaf verið að vinna og setja upp,“ heldur Haukur áfram og kemur niðurlagið ekki á óvart. Hætta tónlistarmenn og leikhúsfólk nokkurn tímann? Skrifa rithöfundar ekki endalaust og hér mætti nefna fleiri stéttir, gjarnan listamenn sem hafa átt sér lífsviðurværi sem meira er sprottið af köllun en hinum þunga níu til fimm-takti hins hefðbundna atvinnulífs.

Hefur Haukur meðal annars nýlega sett upp tilnefnt verðlaunaverk í Svíþjóð auk þess sem hann hefur starfað við kvenska leikhúsið, það er leikhús finnska þjóðflokksins Kvena, og sett þar upp verkið Sangen fra Rotsundet, þar sem hann annaðist búningahönnun og setti meðal annars einn búning saman úr þremur japönskum kímonó-kjólum.

Verkið Sangen fra Rotsundet sett upp í kvenska leikhúsinu í …
Verkið Sangen fra Rotsundet sett upp í kvenska leikhúsinu í maí í vor. „Ég leikstýrði og hannaði búningana. Búningurinn lengst til vinstri var saumaður úr þremur kímonóum sem ég kom með frá Japan,“ segist Hauki frá. Ljósmynd/Kvääniteatteri/Knut Åserud

„Kvenska leikhúsið er frekar nýtt, þeir buðu mér að koma og setja upp og þarna var ég líka með í nýsköpun eins og í samíska leikhúsinu, að skapa einhvern stíl, og ég hannaði búningana líka,“ segir Haukur frá sem kveðst alla tíð hafa verið áhugamaður um þjóðbúninga og annan sérklæðnað mismunandi menningarheima.

Giftur indverskum ferðamálafrömuði

„Svo hef ég stundum teiknað búninga sjálfur, þetta verk í kvenska leikhúsinu gerðist árið 1790 sem er rókokkóstíll og ég lét sauma þessa kímonóa frá Japan saman í rókokkóstíl, það var óskaplega skemmtilegt verkefni,“ heldur hann áfram, en Haukur ferðast mikið um heiminn.

„Ég er að fara til Japans núna í nóvember og fer svo til Indlands og verð um jólin,“ segir hann frá en Haukur er giftur indverskum ferðamálafrömuði, Melroy Desylva. „Við kynntumst þegar ég var að undirbúa sýningarferð með samíska leikhúsið til Suður-Asíu og hann tók að sér að skipuleggja ferðina.“

Haukur Jón Gunnarsson leikstjóri unir sér vel í höfuðstað Norður-Noregs, hinni tignarlegu Tromsø með sína mögnuðu Íshafsdómkirkju og háskóla sem vakið hefur athygli víða um heim fyrir rannsóknir á norðurskautinu og hinum annáluðu norðurslóðamálum svokölluðu.

Hluti hvers einasta dags í lífi Hauks snýst um leiklistina eins og lokaorð leikstjórans endurspegla vel í þessu viðtali: „Ég er alltaf eitthvað að dunda í þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert