Líklegast matvælatengt: Skoða nautahakk

Guðrún segir það skýrast á næstu dögum hvað hafi ollið …
Guðrún segir það skýrast á næstu dögum hvað hafi ollið E. coli hópsmitinu á leikskólanum. Samsett mynd/Reykjavíkurborg/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir ekki ólíklegt að leikskólabörn sem greinst hafi með E. coli smit hafi sýkst í gegnum matvæli. Sýkinguna sé oft að finna í nautahakki.

„Sem er svo sem alveg algengur matur á leikskólum og er eitt af því sem við erum að kíkja á,“ segir Guðrún í samtali við blaðamann mbl.is. Hakk var á meðal þess sem var í boði á leikskólanum á fimmtudaginn.

Tvö á gjörgæslu

Guðrún segir fleiri sýni hafa verið tekin í gær og í dag en 18 börn eru undir eftirliti Landspítalans og eru tíu börn með staðfest smit. Sjö börn liggja á spítala og tvö eru alvarlega veik á gjörgæslu.

Myndin taki brátt að skýrast

Hún segir sérstakt sóttvarnateymi rannsaka orsök smitanna um þessar mundir og býst við því að myndin taki að skýrast á næstu dögum.

Heilbrigðiseftirlitið rannsaki nú hvaða matvæli hafi verið notuð og taki sýni. Sömuleiðis verði viðtöl tekin við fjölskyldurnar til að fá skýrari mynd af matarsögu barnanna, einkennum og fleiru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert