Neyðarvistun barna á lögreglustöðinni í Hafnarfirði

Ásmundur Einar segir viðbúið að stjórnarslitin muni hafa neikvæð áhrif …
Ásmundur Einar segir viðbúið að stjórnarslitin muni hafa neikvæð áhrif á framgang mála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu mánuði mun neyðar­vist­un barna að hluta til fara fram á lög­reglu­stöðinni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði, en einnig í af­stúkuðu rými sem út­búið hef­ur verið til bráðabirgða inni á meðferðardeild Stuðla. Minnk­ar meðferðardeild­in sem því nem­ur.

Á lög­reglu­stöðinni verður þyngri neyðar­vist­un á meðan létt­ari neyðar­vist­un fer fram á Stuðlum.

Bruna- og ör­yggis­próf­an­ir fóru fram á Stuðlum í gær og gefið var grænt ljós á að starf­semi gæti haf­ist þar að nýju eft­ir að eld­ur kom upp á laug­ar­dag­inn, með þeim af­leiðing­um að 17 ára pilt­ur lést. Öll þau börn sem fóru tíma­bundið yfir á Vog eft­ir brun­ann ættu nú að vera aft­ur kom­in á Stuðla.

Eld­ur­inn kom upp í her­bergi vist­manns í neyðar­vist­un og er sú álma Stuðla gjör­ónýt. Viðbúið er að viðgerðir muni taka nokkra mánuði

Verið er að und­ir­búa rýmið á lög­reglu­stöðinni Í Hafnar­f­irði svo þar verði hægt að taka við börn­um í neyðar­vist­un en mennta- og barna­málaráðherra ger­ir ráð fyr­ir því að þeim fram­kvæmd­um ljúki í síðasta lagi á föstu­dag.

Fá Skála­tún af­hent í næstu viku

Þá er gert ráð fyr­ir að barna- og fjöl­skyldu­stofa fái hús­næði meðferðar­heim­il­is að Skála­túni af­hent í næstu viku, en þar verða vistuð börn sem hafa þegar lokið meðferð á Stuðlum. Þegar hef­ur verið aug­lýst eft­ir fólki til starfa á meðferðar­heim­ilið. Ráðherra seg­ir það verk­efni vera á áætl­un og alltaf hafi staðið til að heim­ilið yrði tekið í notk­un á þess­um tíma.

Loka þurfti á meðferðar­heim­il­inu á Lækj­ar­bakka á Suður­landi í vor þegar upp kom mygla í hús­næðinu, en þar voru vistuð börn með al­var­leg­an hegðun­ar­vanda, sem höfðu lokið meðferð á Stuðlum. Í kjöl­farið var leigt annað hús­næði und­ir starf­sem­ina, Ham­arskot við Sel­foss, þar sem einnig kom í ljós mygla þegar fram­kvæmd­ir hóf­ust. Úrræði fyr­ir þenn­an hóp hef­ur því ekki verið til staðar frá því í vor.

„Það er þessi vandi sem við höf­um verið að glíma við í þess­ar vik­ur og mánuði en það horf­ir til þess að við náum að festa hús­næði á Suður­landi sem gæti hentað í þetta, en við erum ekki kom­in á það stað að segja frá því op­in­ber­lega,“ seg­ir Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, í sam­tali við mbl.is.

Meðferðarheimilið Stuðlar hefur verið opnað aftur eftir brunann um síðustu …
Meðferðar­heim­ilið Stuðlar hef­ur verið opnað aft­ur eft­ir brun­ann um síðustu helgi. mbl.is/​Karítas

Laga­breyt­ing­ar verða að bíða fram yfir kosn­ing­ar

Í Skála­túni er gert ráð fyr­ir framtíðar­upp­bygg­ingu á þjón­ustu og úrræðum fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda og stofn­un­um sem hafa með mál­efni þeirra barna að gera.

„Það er eitt af því sem við ætluðum að reyna að ljúka á þessu haustþingi með laga­breyt­ing­um sem tengd­ust barna­vernd­ar­lög­um, en sú varð ekki raun­in,“ seg­ir Ásmund­ur, en eins og flest­ir vita þá var rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu slitið fyrr í þess­um mánuði. 

Aðspurður hvort framtíð verk­efn­is­ins sé þá í upp­lausn seg­ir Ásmund­ur það liggja fyr­ir að laga­breyt­ing­arn­ar muni þurfa að bíða fram yfir kosn­ing­ar.

„En við ætl­um að reyna að gera samn­inga, bæði varðandi heim­ilið á Suður­landi og líka varðandi það að geta komið þessu af stað, þannig það verði ekki hnökr­ar gagn­vart þess­um börn­um inn í næstu mánuði. Það er það sem ég hef ein­sett mér að fylgja eft­ir á næstu vik­um, sam­hliða kosn­ing­um og öðru,“ seg­ir Ásmund­ur. 

„Fyr­ir þessi börn brenn ég eig­in­lega meira en að það að vera í stjórn­mál­um og þess vegna hafa síðustu dag­ar verið svona þung­bær­ir.“

Óviss­an hef­ur nei­kvæð áhrif

Hon­um hefði þótt heppi­legra og ábyrgðarfyllra að rík­is­stjórn­in hefði starfað tveim­ur mánuðum leng­ur. Óhjá­kvæmi­lega hafi það nei­kvæð áhrif á fram­gang mála að stjórn­ar­sam­starf­inu hafi verið slitið á þess­um tíma­punkti.

„Öll svona óvissa hef­ur áhrif, sann­ar­lega. En ég ætla að gera það sem ég get til þess að draga úr lík­um á því og til að kom­ast sem lengst í þessu. Það er mér mikið kapps­mál og hjart­ans mál.“

Er raun­hæft að þú get­ir fylgt þess­um mál­um eft­ir?

„Eins langt og mögu­legt er. Þetta bara kall­ar á það. Ég finn að það hef­ur skipt miklu máli núna að það sé ráðherra til staðar. Þeir fund­ir sem ég hef átt með barna- og fjöl­skyldu­stofu um helg­ina á Stuðlum, allt skipt­ir þetta máli. Að geta borið skila­boð og tekið ákv­arðanir hraðar.“

„Allt þetta setti strik í reikn­ing­inn“

Aðspurður út í gagn­rýni for­eldra þeirra barna sem voru á Stuðlum þegar brun­inn varð, um að bet­ur hefði mátt standa að mál­um og að önn­ur úrræði hefðu þurft að vera staðar, en að senda sum börn­in tíma­bundið heim, seg­ir Ásmund­ur að vissu­lega hefði verið gott ef það úrræði sem átti vera til­búið í sum­ar hefði verið komið í notk­un. Það hafi hins veg­ar ekki verið fyr­ir­séð að mygla reynd­ist þar. 

„Allt þetta setti strik í reikn­ing­inn, Fyrst og síðast vil ég þakka SÁÁ fyr­ir að bregðast skjótt við. Það ger­ir eng­inn ráð fyr­ir að það kvikni í úrræði og ég finn ekki annað en að starfs­fólk barna- og fjöl­skyldu­stofu og Stuðla hafi gert hvað það get­ur til að vinna úr hlut­un­um á eins skömm­um tíma og mögu­legt er, með eins minnst­um af­leiðing­um gagn­vart þess­um börn­um og kost­ur er.“

Þver­póli­tísk­ur vilji fyr­ir hendi

Ásmund­ur bend­ir í því sam­hengi á að fram­kvæmd­ir hafi staðið yfir all­an sól­ar­hring­inn á Stuðlum svo hægt væri að opna þar aft­ur í dag. All­ir hafi því verið að gera sitt besta.

„Það er hins veg­ar al­veg rétt að við þurf­um að fjár­festa meira í þess­um börn­um og fjár­festa miklu meira í úrræðum fyr­ir þessi börn. Það er akkúrat sú vinna sem ég hef vitnað til að hafi verið í sam­tali og sam­vinnu við fjár­málaráðherra síðustu mánuði og mun birt­ast í fjár­auka­lög­um núna, líka fyr­ir aðra umræðu fjár­laga. Bæði varðandi of­beldisaðgerðir og líka varðandi úrræði fyr­ir börn.“ 

Hann seg­ir mik­inn þver­póli­tísk­an vilja fyr­ir því á Alþingi að klára þessi mál, en það verði líka að hafa í huga að það taki oft tíma að sjá ár­ang­ur af aðgerðum í þess­um mála­flokki.

Skil­ar sparnaði í kerf­inu eft­ir 5 - 10 ár

„Á sama tíma er gríðarlegra mik­il­vægt að við gef­um ekki af­slátt af því að fjár­festa fyrr. Og við sjá­um það al­veg að það sem við erum að vinna að í nýj­um far­sæld­ar­lög­um, þar sem er að tak­ast að grípa fyrr inn, á fyrri stig­um, með sam­vinnu ólíkra aðila; fé­lagsþjón­ustu, skóla, heil­brigðisþjón­ustu, heim­il­is og sveit­ar­fé­laga, þar eig­um við til lengri tíma að geta byrgt brunn­inn. En það tek­ur tíma,“ seg­ir Ásmund­ur

„Gert var ráð fyr­ir því að þær laga­breyt­ing­ar fari ekki að skila raun­veru­leg­um ár­angri til sparnaðar í kerf­inu fyrr en eft­ir fimm til tíu ár, vegna þess að börn­in sem við erum að tak­ast á við í þyngsta end­an­um núna, eru börn sem hafa áföll í sinni æsku miklu fyrr. Þannig þetta er lang­tíma­fjár­fest­ing. Við meg­um ekki gefa af­slátt af lang­tíma­fjár­fest­ing­unni um leið og við tækl­um þenn­an vanda.“

Rými inni á meðferðardeild Stuðla hefur verið stúkað af fyrir …
Rými inni á meðferðardeild Stuðla hef­ur verið stúkað af fyr­ir neyðar­vist­un. mbl.is/​Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert