Næstu mánuði mun neyðarvistun barna að hluta til fara fram á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, en einnig í afstúkuðu rými sem útbúið hefur verið til bráðabirgða inni á meðferðardeild Stuðla. Minnkar meðferðardeildin sem því nemur.
Á lögreglustöðinni verður þyngri neyðarvistun á meðan léttari neyðarvistun fer fram á Stuðlum.
Bruna- og öryggisprófanir fóru fram á Stuðlum í gær og gefið var grænt ljós á að starfsemi gæti hafist þar að nýju eftir að eldur kom upp á laugardaginn, með þeim afleiðingum að 17 ára piltur lést. Öll þau börn sem fóru tímabundið yfir á Vog eftir brunann ættu nú að vera aftur komin á Stuðla.
Eldurinn kom upp í herbergi vistmanns í neyðarvistun og er sú álma Stuðla gjörónýt. Viðbúið er að viðgerðir muni taka nokkra mánuði
Verið er að undirbúa rýmið á lögreglustöðinni Í Hafnarfirði svo þar verði hægt að taka við börnum í neyðarvistun en mennta- og barnamálaráðherra gerir ráð fyrir því að þeim framkvæmdum ljúki í síðasta lagi á föstudag.
Þá er gert ráð fyrir að barna- og fjölskyldustofa fái húsnæði meðferðarheimilis að Skálatúni afhent í næstu viku, en þar verða vistuð börn sem hafa þegar lokið meðferð á Stuðlum. Þegar hefur verið auglýst eftir fólki til starfa á meðferðarheimilið. Ráðherra segir það verkefni vera á áætlun og alltaf hafi staðið til að heimilið yrði tekið í notkun á þessum tíma.
Loka þurfti á meðferðarheimilinu á Lækjarbakka á Suðurlandi í vor þegar upp kom mygla í húsnæðinu, en þar voru vistuð börn með alvarlegan hegðunarvanda, sem höfðu lokið meðferð á Stuðlum. Í kjölfarið var leigt annað húsnæði undir starfsemina, Hamarskot við Selfoss, þar sem einnig kom í ljós mygla þegar framkvæmdir hófust. Úrræði fyrir þennan hóp hefur því ekki verið til staðar frá því í vor.
„Það er þessi vandi sem við höfum verið að glíma við í þessar vikur og mánuði en það horfir til þess að við náum að festa húsnæði á Suðurlandi sem gæti hentað í þetta, en við erum ekki komin á það stað að segja frá því opinberlega,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is.
Í Skálatúni er gert ráð fyrir framtíðaruppbyggingu á þjónustu og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda og stofnunum sem hafa með málefni þeirra barna að gera.
„Það er eitt af því sem við ætluðum að reyna að ljúka á þessu haustþingi með lagabreytingum sem tengdust barnaverndarlögum, en sú varð ekki raunin,“ segir Ásmundur, en eins og flestir vita þá var ríkisstjórnarsamstarfinu slitið fyrr í þessum mánuði.
Aðspurður hvort framtíð verkefnisins sé þá í upplausn segir Ásmundur það liggja fyrir að lagabreytingarnar muni þurfa að bíða fram yfir kosningar.
„En við ætlum að reyna að gera samninga, bæði varðandi heimilið á Suðurlandi og líka varðandi það að geta komið þessu af stað, þannig það verði ekki hnökrar gagnvart þessum börnum inn í næstu mánuði. Það er það sem ég hef einsett mér að fylgja eftir á næstu vikum, samhliða kosningum og öðru,“ segir Ásmundur.
„Fyrir þessi börn brenn ég eiginlega meira en að það að vera í stjórnmálum og þess vegna hafa síðustu dagar verið svona þungbærir.“
Honum hefði þótt heppilegra og ábyrgðarfyllra að ríkisstjórnin hefði starfað tveimur mánuðum lengur. Óhjákvæmilega hafi það neikvæð áhrif á framgang mála að stjórnarsamstarfinu hafi verið slitið á þessum tímapunkti.
„Öll svona óvissa hefur áhrif, sannarlega. En ég ætla að gera það sem ég get til þess að draga úr líkum á því og til að komast sem lengst í þessu. Það er mér mikið kappsmál og hjartans mál.“
Er raunhæft að þú getir fylgt þessum málum eftir?
„Eins langt og mögulegt er. Þetta bara kallar á það. Ég finn að það hefur skipt miklu máli núna að það sé ráðherra til staðar. Þeir fundir sem ég hef átt með barna- og fjölskyldustofu um helgina á Stuðlum, allt skiptir þetta máli. Að geta borið skilaboð og tekið ákvarðanir hraðar.“
Aðspurður út í gagnrýni foreldra þeirra barna sem voru á Stuðlum þegar bruninn varð, um að betur hefði mátt standa að málum og að önnur úrræði hefðu þurft að vera staðar, en að senda sum börnin tímabundið heim, segir Ásmundur að vissulega hefði verið gott ef það úrræði sem átti vera tilbúið í sumar hefði verið komið í notkun. Það hafi hins vegar ekki verið fyrirséð að mygla reyndist þar.
„Allt þetta setti strik í reikninginn, Fyrst og síðast vil ég þakka SÁÁ fyrir að bregðast skjótt við. Það gerir enginn ráð fyrir að það kvikni í úrræði og ég finn ekki annað en að starfsfólk barna- og fjölskyldustofu og Stuðla hafi gert hvað það getur til að vinna úr hlutunum á eins skömmum tíma og mögulegt er, með eins minnstum afleiðingum gagnvart þessum börnum og kostur er.“
Ásmundur bendir í því samhengi á að framkvæmdir hafi staðið yfir allan sólarhringinn á Stuðlum svo hægt væri að opna þar aftur í dag. Allir hafi því verið að gera sitt besta.
„Það er hins vegar alveg rétt að við þurfum að fjárfesta meira í þessum börnum og fjárfesta miklu meira í úrræðum fyrir þessi börn. Það er akkúrat sú vinna sem ég hef vitnað til að hafi verið í samtali og samvinnu við fjármálaráðherra síðustu mánuði og mun birtast í fjáraukalögum núna, líka fyrir aðra umræðu fjárlaga. Bæði varðandi ofbeldisaðgerðir og líka varðandi úrræði fyrir börn.“
Hann segir mikinn þverpólitískan vilja fyrir því á Alþingi að klára þessi mál, en það verði líka að hafa í huga að það taki oft tíma að sjá árangur af aðgerðum í þessum málaflokki.
„Á sama tíma er gríðarlegra mikilvægt að við gefum ekki afslátt af því að fjárfesta fyrr. Og við sjáum það alveg að það sem við erum að vinna að í nýjum farsældarlögum, þar sem er að takast að grípa fyrr inn, á fyrri stigum, með samvinnu ólíkra aðila; félagsþjónustu, skóla, heilbrigðisþjónustu, heimilis og sveitarfélaga, þar eigum við til lengri tíma að geta byrgt brunninn. En það tekur tíma,“ segir Ásmundur
„Gert var ráð fyrir því að þær lagabreytingar fari ekki að skila raunverulegum árangri til sparnaðar í kerfinu fyrr en eftir fimm til tíu ár, vegna þess að börnin sem við erum að takast á við í þyngsta endanum núna, eru börn sem hafa áföll í sinni æsku miklu fyrr. Þannig þetta er langtímafjárfesting. Við megum ekki gefa afslátt af langtímafjárfestingunni um leið og við tæklum þennan vanda.“