„Nú hefst nýr kafli í lífi okkar“

Vilhjálmur ásamt eiginkonu sinni, Sigurlaugu Pétursdóttur, og strákunum þeirra.
Vilhjálmur ásamt eiginkonu sinni, Sigurlaugu Pétursdóttur, og strákunum þeirra. Ljósmynd/Facebook

Grindavíkurþingmaðurinn Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, hefur flutt lögheimili sitt í Reykjanesbæ. Hann segir að þrátt fyrir ítrekuð áföll á undanförnu ári sé hann og fjölskyldan full af bjartsýni í nýjum heimabæ.

Þessu greinir hann frá í færslu á Facebook.

Hann segir að á mánudaginn hafi verið tímamót fyrir hann og Grindavík. Á sama tíma og bærinn opnaði á ný fyrir almenningi flutti hann formlega lögheimili sitt að Lyngmóa í Njarðvík í Reykjanesbæ.

Árið samanstaðið af áföllum

„Árið hefur samanstaðið af ítrekuðum áföllum og áskorunum sem við fjölskyldan höfum komist í gegnum, með hjálp frá bæði samfélaginu í Grindavík og Reykjanesbæ, ásamt vina og ættingja. Það er óneitanlega mikil og tilfinnanleg breyting að flytja fjölskylduna eftir rýminguna í Grindavík, en við Silla erum full bjartsýni og hlökkum til að sjá strákana okkar vaxa og dafna í nýjum heimabæ okkar, Reykjanesbæ,“ skrifar Vilhjálmur og heldur áfram:

„Þrátt fyrir að ég sé nú fluttur í frábært og ört stækkandi sveitarfélag, þar sem tækifærin eru á hverju strái, mun hjartað mitt ávallt slá með Grindavík.“

Hann segir að enn séu margar fjölskyldur og fyrirtæki sem búi við óvissu og því ætli hann áfram að berjast fyrir hagsmunum Grindvíkinga.

Sjaldan verið jafn stoltur af því að vera Íslendingur

Hann segir að fullt tilefni sé til bjartsýni fyrir framtíð Grindavíkur. Líf sé komið í höfnina, börn muni sækja skóla í sveitarfélaginu í framtíðinni og að samfélagið muni vaxa og dafna á nýjan leik.

Hann kveðst ætla leggja sitt af mörkum til að tryggja að Grindavík verði áfram eitt öflugasta sveitarfélag landsins.

„Ég hef sjaldan verið jafn stoltur að því að vera Íslendingur og Suðurnesjamaður, því þegar á móti blæs þá stöndum við saman, hjálpum hvert öðru og byggjum hvert annað upp. Nú hefst nýr kafli í lífi okkar fjölskyldunnar en við erum öll sem eitt full eftirvæntingar fyrir framtíðinni í Reykjanesbæ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka