Umfangsmikil mansalsrannsókn enn í gangi

Stúlkurnar komu til landsins í júlí í fyrra.
Stúlkurnar komu til landsins í júlí í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfangsmikil mansalsrannsókn er enn í gangi hjá lögreglunni á Suðurnesjum en tveimur mönnum sem sátu í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið var sleppt í síðasta mánuði.

Þeir voru hnepptir í varðhald eftir að að ljós kom að tvær stúlkur undir 18 ára aldri voru ranglega skráðar sem dætur annars þeirra. Var það ljóst eftir niðurstöðu úr DNA-prófi.

„Málið er enn til rannsóknar hjá embættinu og ekki er hægt að svo stöddu að veita aðrar upplýsingar um framgang rannsóknarinnar,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir öðrum manninum kom fram að grunur léki á því að maðurinn hefði ætlað sér að hagnýta stúlkurnar í mansal.

Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í tengslum við málið að rannsókn lögreglu sneri að mansali, skjalafalsi, röngum framburði og að hafa skipulagt smygl á fólki til landsins.

Komu til Íslands til að hitta föður sinn

Úlfar sagði við mbl.is í síðasta mánuði að mennirnir tveir sættu engum ferðatakmörkunum. Annar þeirra er með íslenskt ríkisfang en báðir eru þeir löglegir inni í landinu.

Fram kom einnig í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að stúlkurnar hefðu komið til landsins í júlí í fyrra. Þær sögðust hafa komið til Íslands til að að hitta föður sinn sem ætti heima hér.

Við uppflettingu hjá lögreglu mátti sjá að þeim hefði verið veitt dvalarleyfi á grundvelli þess að þær ættu íslenskan föður. Jafnframt var hann skráður í kerfum stjórnvalda sem faðir stúlknanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert