Varaþingmaður hjólar í eigin þingmann

Georg Eiður Arnarson hyggst ekki kjósa Flokk fólksins í komandi …
Georg Eiður Arnarson hyggst ekki kjósa Flokk fólksins í komandi þingkosningum. Hann er harðorður í garð þingmanns flokksins í Suðurkjördæmi. Samsett mynd

Georg Eiður Arnarsson, varaþingmaður í Flokki fólksins, er hættur í flokknum. Segir hann samstarf við Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmann flokksins, hafa gengið illa og sakar hana um að hafa unnið gegn því á sínum tíma að flokkurinn fengi tvo þingmenn en einungis 200 atkvæði vantaði upp á það.

Eins segir hann að Ásthildur hafi sagt að hún hefði ekki tíma fyrir kjördæmið þegar hún sat á þingi en hún er íbúi í Garðabæ. Þá að hún hafi neitað að kalla inn varaþingmann þegar hún var fjarverandi því hún hefði „ekki efni á því.“ Segir hann það þvert á loforð um að hún myndi kalla hann til þegar þörf væri á því. Sérstaklega þegar málefni sjávarútvegsins báru á góma í þinginu.

Þetta kemur fram í pistli í Eyjafréttum 

Segir Ásthildi hafa bannað að senda henni efni

„Eftir kosningarnar, þar sem Ásta Lóa (Ásthildur Lóa) var orðin þingmaður okkar sunnlendinga en er íbúi í Garðabæ, þá fór ég að senda reglulega á hana í skilaboðum alltaf þegar eitthvað var að gerast í kjördæminu, sem mér fannst að hún ætti að vita og þá hugsanlega koma á framfæri athugasemdum á þinginu, en eftir nokkra mánuði, þá hafði hún samband við mig og bannaði mér að senda svona efni á sig vegna þess, að hún hefði einfaldlega ekki tíma til að sinna einhverju öðru en því, sem hún var að sinna á Alþingi. Þetta pirraði mig alveg rosalega mikið, en já, ég leysti af í viku vorið 2022 og fékk mikið lof frá mínu fólki fyrir það sem ég talaði um þar. Í framhaldinu bjóst ég að sjálfsögðu við að frá frekari afleysingar veturinn þar á eftir, en aldrei kom símtalið,“ segir Georg.

Hefði ekki efni á að kalla til varaþingmann 

Steininn hafi tekið úr þegar Ásthildur Lóa var í fríi frá þingstörfum erlendis en ekki var haft samband við Georg til að stíga inn á þing. Segir Georg vini hafa gert athugasemd við þetta og spurt hann hvers vegna hann væri ekki á þingi sem varaþingmaður.

Hann segir að Ásthildur hafi gefið honum loðin svör og að hún hafi óvænt farið í ferðalag og ekki gefist tími til að kalla inn varamann.

Þá hafi hún loks árið 2023, í lok júní, tilkynnt honum í einkasamtali um að loforð sem hún hafi gefið um afleysingar gæti hún ekki staðið vegna þess að hún hafði ekki efni á því. „Mér fannst þetta mjög sérstakt í ljósi þess að hún fór a.m.k. 3 ferðir erlendis þetta árið,“ segir Georg.

Var boðið fjórða sætið 

Þá og þegar íhugaði Georg að segja sig úr flokknum en eftir samtöl við stuðningsmenn hafi hann rætt meint áhugaleysi Ásthildar á kjördæminu við Ingu Sæland. Hún hafi þá rætt við Ásthildi sem hafi tekið á sig rögg um skamma stund að sögn Georgs. Allt fór hins vegar fljótlega í sama horf að sögn hans.

Nú fyrir kosningarnar sem fram undan eru bauð Ásthildur honum fjórða sæti á lista flokksins. Hann segir það hafa verið fyrirséð en hann var í öðru sæti fyrir síðustu kosningar.

Ætlar ekki að kjósa flokkinn 

„Fyrir mitt leyti hins vegar, þá mun ég að öllum líkindum ekki kjósa flokkinn í komandi kosningum, en óska mínum fyrri félögum alls hins besta í kosningunum og þakka um leið öllum þeim sem stutt hafa mig í þessari vegferð,“ segir Georg.

Segist hann jafnframt ekki útiloka að bjóða sig fram aftur ef hann getur komið málefnum sjávarútvegsins á dagskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka