„Í vor fóru fram skýrslutökur yfir sakborningum þar sem vitnað var til þessara samskipta, en í þeim var nánast ekki neitt efnislegt,“ segir Halldór Brynjar Halldórsson, verjandi Örnu McClure, fyrrverandi yfirlögfræðings Samherja, í samtali við mbl.is.
Skjólstæðingur hans hefur um fjögurra og hálfs árs skeið haft réttarstöðu sakbornings í máli héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu.
Vísar Halldór til samskipta við Örnu og fleiri aðila, sem fundust í fartölvu Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra í Namibíu og meints uppljóstrara í máli saksóknara gegn Samherja, en tölvuna afhenti hann héraðssaksóknara fyrir tæpum fimm árum, sem hefur hana enn í fórum sínum.
Krafðist Halldór þess, fyrir hönd skjólstæðings síns, að fá aðstöðu hjá saksóknara með það fyrir augum að kynna sér önnur þau samskipti sem kann að vera að finna á fartölvunni. Þessu hafnaði saksóknari á þeim forsendum að samskiptin teldust ekki til gagna málsins og hefur sú höfnun nú verið kærð til héraðsdóms.
„Við, verjendur og sakborningar málsins, vissum ekki af þessum samskiptum sem dúkka allt í einu upp úr tölvunni núna í vor, tölvu sem héraðssaksóknari heftur haft undir höndum í á fimmta ár,“ segir Halldór.
„Við óskuðum eftir að fá að sjá samskipti Jóhannesar við þessa meintu mútuþega og aðra aðila úti í Namibíu og fengum að skoða þau, við fengum ekki afrit af þeim vegna þess að þau voru ekki meðal gagna málsins og það eitt og sér finnst okkur reyndar stórfurðulegt – að samskipti meints uppljóstrara við meinta mútuþega, sem héraðssaksóknari hefur haft undir höndum í tæp fimm ár, skuli ekki vera meðal gagna málsins. Lögreglu ber að draga allt fram sem horfir til sektar og sýknu en þarna er verið að halda frá gögnum sem við teljum mjög mikilvæg,“ segir lögmaðurinn.
Við skoðun téðra samskipta kveðst Halldór ekki hafa séð betur en að þau hafi stutt það sem skjólstæðingur hans hefur haldið fram um lengri tíma, „að Arna er náttúrulega búin að vera að reyna að losna út úr þessari rannsókn í tvö og hálft ár núna og í þessum samskiptum kemur ýmislegt fram sem styður það“, heldur hann áfram.
Samskiptin, sem tölvan geymir, varpi mjög skýru ljósi á líferni meints uppljóstrara sem varnaraðilar málsins hafi haldið fram að hafi þýðingu fyrir trúverðugleika hans. „Þau varpa ljósi á að þessir meintu mútuþegar voru að veita dótturfélögum Samherja í Namibíu margvíslega ráðgjöf, þvert á það sem meintur uppljóstrari hefur haldið fram, auk þess sem þau varpa nokkuð skýru ljósi á, að okkar viti, að meintur uppljóstrari hafi stjórnað starfseminni í Namibíu. Þannig að okkur finnst þar með enn sérstakara að ekki sé búið að gera þessi gögn að gögnum málsins,“ útskýrir Halldór.
Hann vill því, sem verjandi Örnu, fá að skoða tölvuna í heild sinni, „hvaða önnur samskipti séu til dæmis í henni, samskipti við einhverja aðra til dæmis, við vitum ekkert hvað er í tölvunni. Og núna erum við sem sagt að gera kröfu um það fyrir héraðsdómi að fá að skoða tölvuna, bara með líkum hætti og við fengum að skoða þessi gögn í sumar, við erum ekki að krefjast þess að fá tölvuna afhenta, bara að fá að skoða hana,“ segir verjandinn.
Var ágreiningur um kröfuna fluttur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn og bíður málið nú úrskurðar dómara.