Dæmdur fyrir hatursorðræðu gegn Samtökunum '78

Maðurinn játaði sök fyrir dómi.
Maðurinn játaði sök fyrir dómi. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa opinberlega smánað og ógnað Samtökunum '78, félagsmönnum þess og fólki sem styður samtökin með ummælum sem hann birti í færslu á Facebook-síðu sinni í október í fyrra.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra, en dómur féll fyrr í þessum mánuði. 

Maðurinn birti fjórar færslur þar sem hann smánaði eða hvatti til ofbeldis gegn þeim sem styðja Samtökin '78 eða hinsegin samfélagið. 

Ummælin voru talin brot á 1. mgr. 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

„Hér með lýsi ég yfir stríði við samtökin 78 og LGBQT hver og eitt einasta skítadrasl innanum S78 verða dregin út á hárinu og hengd,“ var á meðal þess sem maðurinn skrifaði á Facebook-síðu sína. 

Viðeigandi að takmarka tjáningarfrelsi

„Ákærði viðhafði orðræðu sem felur í sér fordómafulla og hatursfulla tjáningu sem er í senn ógnandi og hvetur til ofbeldis í garð hópa vegna kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitund þeirra. Verður að telja nauðsynlegt og samrýmanlegt lýðræðishefðum í skilningi 3. mgr. 73. gr stjórnarskrárinnar að takmarka í þessu tilviki tjáningarfrelsi ákærða samkvæmt 2. mgr. sömu greinar með því að sakfella hann fyrir þá háttsemi sem honum er gefin sök í ákæru,“ segir í uppkvaðningu dómsins. 

Þar segir jafnframt að maðurinn hafi átt töluverðan sakaferil að baki allt frá árinu 1997, en það hafi ekki haft áhrif á ákvörðun þessarar refsingar. Maðurinn játaði sök fyrir dómi og lýsti hann iðrun og eftirsjá. 

Hér má lesa dóminn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert