Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mun skipa fjórða sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi kosningum.
Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni.
„Fyrir síðustu kosningar ákvað ég að gefa mig að stjórnmálunum. Síðastliðið ár hef ég staðið í ströngu sem þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík. Nú er komið að því að taka slaginn aftur og ég er gífurlega stolt af því að vera treyst fyrir því verkefni að skipa baráttusæti glæsilegs lista Samfylkingarinnar í 4. sæti Reykjavíkurkjördæmis norður,“ skrifar Dagbjört á Facebook.
Fyrir síðustu alþingiskosningar var Dagbjört í þriðja sæti í Reykjavík norður og komst ekki inn á þing í þeim kosningum. Hún tók svo sæti Helgu Völu Helgudóttir þegar hún sagði sig frá þingmennsku fyrir rúmu ári.
Kristrún Frostadóttir formaður flokksins leiðir í Reykjavík norður. Í öðru sæti verður Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, og Þórður Snær Júlísson, fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar, situr í því þriðja.
Þetta herma heimildir mbl.is en kosið verður um tillögur uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum á morgun.