Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og síðustu vikur og mögulega gæti dregið til tíðinda seinni partinn í nóvember með kvikuhlaupi eða eldgosi. Næsta gos gæti orðið 30 prósent stærra en síðasta gos.
Síðasta eldgos á Sundhnúkagígaröðinni lauk 5. september og stóð það yfir í tvær vikur en það var það sjötta í röðinni frá því í desember 2023.
Gosið var um leið það kraftmesta af gosunum sex eða yfir 60 milljónir rúmmetrar. Næsta gos gæti orðið allt að 30 prósent stærra, eða um 80 milljónir rúmmetra, sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
„Við verðum alveg að gera ráð fyrir því að ef það verður gos þá er mjög líklegt að það verði töluverð stærra en það síðasta. Gosin hafa farið stækkandi og ef þróunin heldur áfram með sama hætti þá gæti það orðið 30 prósent stærra,“ segir Benedikt Gunnar við mbl.is.
Hann segir óvissuþættina marga en landris og kvikusöfnun heldur áfram.
„Það eru engin merki um það sé eitthvað hægja á þessu í bili og ef kvikuinnflæði heldur áfram á svipuðum hraða má búast við því að neðri óvissumörkum á rúmmáli kviku verði náð í byrjun næsta mánaðar,“ segir Benedikt.
Benedikt segir ekki líklegt að þó svo að gosið verði kröftugt að það muni ógna Reykjanesbrautinni.
„Það þyrfti að verða ansi stórt gos og mun stærra heldur en við erum að gera ráð fyrir. Við þurfum samt að hafa þetta í huga og það er alls ekki hægt að útiloka að Reykjanesbrautin sleppi alveg. Það eru kannski aðrir innviðir sem eru nærtækari eins og Svartsengi og Grindavík en það er algjörlega háð því hvar gossprungan opnast.“
Gossprungan í síðasta eldgosi náði mun lengra í norður en í fyrri gosum og segir Benedikt að gert sé ráð fyrir að hún opnist á svipuðum stað og síðast en mögulega eitthvað norðar þó það sé ekki líklegt.
Síðan á mánudaginn hefur verið óhindrað aðgengi að Grindavík. Spurður hvort hann hafi einhverjar áhyggjur af því segir hann:
„Í bili er það ekkert áhyggjuefni en þegar það fer að nálgast fyrri mörk þá gætu áhyggjurnar aukist. Mestan hættan núna er ef fólk er að þvælast á einhverjum svæðum þar sem hafa verið miklar sprunguhreyfingar.“