Gul viðvörun verður í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og miðhálendinu í dag.
Á Suðurlandi tók hún gildi klukkan 6, á Faxaflóa og Breiðafirði tekur hún gildi klukkan 7 og á miðhálendinu klukkan 8.
Það gengur í suðaustanstorm eða -rok á vestanverðu landinu með talsverðri rigningu sunnan og vestan til og snjókomu eða slyddu á miðhálendinu.
Víða verður varasamt veður til rjúpnaveiða í dag vegna hvassviðris og snjókomu eða slyddu á heiðum, en fer þó smám saman batnandi er líður tekur á daginn, að því er segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Á laugardag og sunnudag verður líklega mun betra veður til útivistar og veiða, þó vissulega sé spáð vestan- og norðvestankalda eða -strekkingi með éljum til fjalla.
Veðurspáin er annars á þann veg að spáð er vaxandi suðaustanátt og þykknar upp, 18-25 m/s og talsverð rigning verður með morgninum, hvassast við fjöll vestanlands. Hægari vindur og úrkomuminna verður norðaustan til og hlýnar í bili. Snýst í suðvestan 10-18 m/s með skúrum og jafnvel slydduéljum undir hádegi, fyrst vestan til og fer að kólna. Lægir og léttir til fyrir austan í kvöld.
Vestlægari og síðar norðvestlægari áttir verða á morgun, skúrir eða él, einkum fyrir norðan, en dregur úr ofankomu annað kvöld. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig, mildast syðst.