Harmar ákvörðun Kópavogsbæjar: Úrræði fátæklegri

Magnús Karl Magnússon og Ellý Katrín Guðmundsdóttir. Til stendur að …
Magnús Karl Magnússon og Ellý Katrín Guðmundsdóttir. Til stendur að flytja starfsemi Roðasalar í stærra hjúkrunarheimili, Hrafnistu, við Boðaþing vorið 2025. mbl.is/Arnþór

Ellý Katrín Guðmundsdóttir dvaldi á hjúkrunarheimilinu Roðasölum í Kópavogi skömmu fyrir andlát sitt sökum Alzheimer-sjúkdómsins. Ekkill Ellýjar, Magnús Karl Magnússon, harmar ákvörðun Kópavogsbæjar að loka hjúkrunarheimilinu sem hann segir að búi yfir einstökum heimilis- og starfsanda.

Hann kveðst sannfærður um að úrræði fyrir einstaklinga með heilabilanir verði fátæklegri ef fram heldur sem horfir.

„Ég hef heyrt það alls staðar frá að þetta hafi verið í miklu metum þetta heimili sem einstakur staður innan samfélags hjúkrunarheimila.“

Smærra en heimilislegra

Í tilkynningu frá bæjarstjórn Kópavogsbæjar var smæð herbergja heimilisins sögð vera til vandræða. Magnús segir að vissulega séu herbergin smærri en víðast hvar en að aftur á móti sé aðstaðan heimilislegri.

„Þetta eru minni herbergi en víðast hvar en á móti kemur þetta heimili sem er mun heimilislegra en flest önnur heimili.“

Hann telur að fjárhagsleg rök hafi legið að baki ákvörðun Kópavogsbæjar en ekki fagleg og að hann fái ekki séð að ákvörðun um lokun Roðasalar hafi ekki verið tekin í samráði við þá sem koma að heimilinu.

„Ég veit að starfsfólkinu var mjög brugðið þegar það heyrði af þessu.“

Einstakur starfsandi 

Magnús segir menninguna á heimilinu einstaka og segir litla starfsmannaveltu bera vitni um það:

„Það segir til um það hve góður andi er þarna.“

Í tilkynningu Kópavogsbæjar voru þrengsli á heimilinu sögð vera starfsfólkinu til vandræða en Magnús segir starfsfólk heimilisins ekki hafa látið þau trufla sig.

„Þau leystu það með bros á vör, get ég sagt, þegar kom að ummönnun íbúa. Það var svo sannarlega ekki á starfsfólkinu að sjá að það væri þjakað af því að vera á slæmum vinnustað. Það var einstakur starfsandi og heimilisandi þarna sem skein í gegnum alla starfsemina.“

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari, lést í júní á þessu …
Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari, lést í júní á þessu ári eftir að hafa glímt í nokkur ár við Alzheimer-sjúkdóminn. Ljósmynd/Aðsend

Til stendur að flytja starfsemi Roðasala í stærra hjúkrunarheimili, Hrafnistu við Boðaþing, vorið 2025 en Magnús biðlar til bæjarstjórnar að taka málið til frekari skoðunar. 

Að flutningarnir komi til með að hafa áhrif á íbúa Roðasala og að hætt sé við því að heimilið missi sérstöðu sína. 

Úrræði verði fátækilegri

Magnús harmaði ákvörðun bæjarins í færslu á Facebook-síðu sinni og sagði úrræði fyrir einstaklinga með heilabilun fátæklegri eftir ákvörðun bæjarins.

Færsla Magnúsar hefur fengið miklar undirtektir, þar á meðal frá Steinunni Þórðardóttur, formanni Læknafélags Íslands og framkvæmdastjóra lækninga hjá Hrafnistu, sem deildi færslunni og skrifaði með:

„Við eigum einmitt að vera að færa okkur í átt að fjölbreyttum, einstaklingsmiðuðum úrræðum - það er lykilatriði í því að veita fólki með heilabilun sómasamlega þjónustu. Velti fyrir mér hvort hér sé einnig um hreina fækkun rýma fyrir hópinn í heild að ræða, á tímum þar sem fjöldi fólks bíður eftir úrræðum mánuðum saman við gríðarlega krefjandi aðstæður.“

Færslu Magnúsar má lesa í heild sinni fyrir neðan: 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert