Innbrotsþjófur með leikfangasverð

Lögreglan hafði í nógu að snúast á vaktinni.
Lögreglan hafði í nógu að snúast á vaktinni. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglunni á Hverfisgötu var tilkynnt um einstakling sem var að reyna að brjótast inn og fylgdi sögunni að hann væri með eggvopn meðferðis. Hann var handtekinn áður en hann komst í húsnæðið. Við leit á honum fannst leikfangasverð úr plasti í bakpoka.

Réðust á starfsmann verslunar

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í umdæmi lögreglunnar á Vínlandsleið. Tveir einstaklingar eru grunaðir í málinu en þeir réðust á starfsmann verslunarinnar sem ætlaði að hafa afskipti af þeim. Starfsmaðurinn var með minniháttar áverka.

Líkamsárás í heimahúsi

Lögreglunni í Hafnarfirði og Garðabæ barst tilkynning um líkamsrárás í heimahúsi. Gerandinn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjólaði á bifreið

Umferðaróhapp varð í Reykjavík þar sem einstaklingur hjólaði á bifreið. Hann var eitthvað slasaður eftir óhappið en ekki er vitað hversu alvarlega, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Alls eru bókuð 67 mál í kerfum lögreglu á tímabilinu. 

Einn á slysadeild

Lögreglunni á Hverfisgötu bárust tilkynningar um þrjú umferðaróhöpp til viðbótar. Ökumaður var fluttur á slysadeild til skoðunar eftir að tvær bifreiðar rákust saman. Þær voru fjarlægðar með dráttarbifreið. Í hinum tveimur óhöppunum slasaðist enginn.

Féll í jörðina

Tilkynnt var um slys þar sem einstaklingur hafði fallið í jörðina í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar en ekki er vitað um meiðsli hans.

Þá var tilkynnt um æstan einstakling í verslun. Hann var búinn að skemma einhverjar vörur þegar lögreglan kom á vettvang. Hann var látinn laus eftir skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert