„Rosalegar breytingar“ gætu orðið á fuglalífinu

Stór hluti heimsstofna spóa er á Íslandi.
Stór hluti heimsstofna spóa er á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísbendingar eru um að talsverð fækkun sé á algengum tegundum mófugla á Suðurlandi. Ef þróun síðustu ára heldur áfram gætu þessir fuglar orðið sárasjaldgæfir í landslagi sveitanna á næstu áratugum. 

Þetta segir Tómas Grétar Gunnarsson, fuglafræðingur hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Rannsóknarsetrið hefur vaktað algenga mófugla á Suðurlandi frá árinu 2011 og í Árnessýslu frá árinu 2016. 

Flestir mófuglar verpa á láglendi og er Suðurland eitt stærsta láglendissvæði Íslands.

Lóu og spóa fækkar milli ára

Algengustu mófuglategundirnar eru tjaldur, spói, heiðlóa, stelkur, lóuþræll, þúfutittlingur, hrossagaukur, jaðrakan og skógarþröstur. Stór hluti heimsstofna lóu og spóa er á Íslandi eða í kringum 30-50%. 

Í stuttri samantekt sem var birt á Facebook-síðu rannsóknarsetursins kemur fram að tjaldi, heiðlóu, spóa, stelk, lóuþræl og þúfutittlingi hafi fækkað verulega á milli ára. Skógarþresti hefur hins vegar fjölgað verulega en mælingar á fjölda hrossagauka og jaðrakana sýna ekki marktæka breytingu. 

Spurður hver skýringin á þessari þróun sé segir Tómas að ekki sé hægt að benda á eitthvað eitt heldur sé þetta líklega samspil ólíkra þátta.

„En það er líklegt að þetta endurspegli búsvæðis- og samfélagsbreytingar sem hafa orðið á síðustu áratugum. Við förum úr þessu opna búsetulandslagi, sem hefur verið hérna í áraraðir, í að nota landið mikið meira. Það gerist bara fyrr á Suðurlandi því við erum nær Reykjavík. Það er meiri ásókn í að bæta við innviðum, fjölga sumarbústöðum og svoleiðis,“ segir Tómas og útskýrir að það sé á kostnað fuglalífsins. 

Gætu orðið sjaldséðir á Suðurlandi næstu áratugi

Hvað er þá hægt að gera til að bregðast við þessari þróun ef þetta er útskýringin?

„Við þurfum einhvern veginn að forgangsraða hvar við ætlum að byggja sumarbústaði, hvar við ætlum að planta skógum svo að við förum ekki beint á bestu blettina sem þessir fuglar eru á svo það verði einhvern veginn innleitt í landnotkun að þessir fuglar eigi heimili. “

Er einhver hætta á að einhverjar af þessum tegundum útrýmist?

„Við höfum ekkert til að spá nema þessi trend sem við höfum núna. Fækkunin hjá þessum tegundum er á bilinu 2-5% á ári og ef við framreiknum það næstu áratugi, og þessi þróun heldur áfram, þá verða þessir fuglar á Suðurlandi orðnir sárasjaldgæfir í landslagi sveitanna eftir 30 ár. Þetta eru rosalegar breytingar ef þær halda áfram með þessum hætti, en það er ekki alveg víst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert