Samfylkingin skar sig úr

Markmið álitsins er að kanna hvort stjórnmálasamtök hafi farið að …
Markmið álitsins er að kanna hvort stjórnmálasamtök hafi farið að fyrra áliti Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin skar sig úr í frumkvæðisathugun Persónuverndar á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir síðustu alþingiskosningar. Flokkurinn notaðist við vítæk persónusnið á grundvelli skráningar Facebook á áhugamálum notenda og annars konar nethegðunarupplýsinga. Þá notaðist Viðreisn að nokkru við slíkar upplýsingar.

Álitið fjallar um vinnslu persónuupplýsinga til þess að afmarka markhópa og beina markaðssetningu að þeim. Það tekur til þeirra átta stjórnmálasamtaka sem fengu þingmenn kjörna í alþingiskosningunum 2021. Markmið álitsins var að kanna hvort stjórnmálasamtök hafi farið að fyrra áliti Persónuverndar um umrætt efni frá árinu 2020.

Ábyrgðin einnig hjá stjórnmálasamtökum

Fram kemur að almennt hafi stjórnmálasamtök eingöngu notast við breytur mjög almenns eðlis, þ.e. aldursbil og grófa staðsetningu.

Þá voru ekki gerðar sérstakar athugasemdir við fræðslu sem stjórnmálasamtökin veittu, en almennt hafi þau birt persónuverndarstefnu á vefsíðu sinni og veitt upplýsingar samhliða auglýsingum.

Hvað snerti notkun nethegðunarupplýsinga telur Persónuvernd að samþykki notenda þurfi að liggja fyrir. Ábyrgð á upplýsingagjöf í tengslum við það liggi ekki aðeins hjá viðkomandi samfélagsmiðlum heldur einnig hjá þeim stjórnmálasamtökum sjálfum sem nýti sér slíkar upplýsingar. 

Persónuvernd telur ekki unnt að byggja á að samþykki skráðra einstaklinga hafi legið fyrir hjá Samfylkingu og Viðreisn í samræmi við gagnsæiskröfur. Í ljósi þess að á samevrópskum vettvangi sé enn beðið úrlausnar, sem skipta máli í þessu samhengi, telur Persónuvernd að ekki gefist tilefni til beitingar valdheimilda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert