Segir ástæðu innkomu Jóns ekki bara hvalveiðimál

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, og Jón Gunnarsson, þingmaður …
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, segir að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verði eins og aðstoðarmaður eða ráðgjafi sinn vegna ýmissa mála sem eru í matvælaráðuneytinu í stjórnsýslulegri meðferð.

Hvalur hf. hefur sent umsókn um leyfi hvalveiða til matvælaráðuneytisins. Spurður hvort Jón væri sérstaklega fenginn til að vinna í hvalveiðimálum svarar Bjarni:

„Þetta er fyrst og fremst almennt verkefni vegna allra þeirra mála sem heyra undir ráðuneytið. Þau eru margvísleg, sum af stjórnsýslulegum toga og önnur geta verið dagsdagleg verkefni,“ segir Bjarni.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að Bjarni hefði fengið Jón sem sérstakan ráðgjafa í matvælaráðuneytið.

Aðspurður segist Bjarni ekki gera ráð fyrir því að Jón verði að segja af sér þingmennsku vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert