Segir Hvammsvirkjun valda tjóni og skaða

Þjórsá.
Þjórsá. mbl.is/RAX

„Ekki verður séð að komist verði hjá skaðlegum áhrifum virkjunarframkvæmdarinnar á vatnshlotið Þjórsá 1,“ segir í bókun Axels Árnasonar Njarðvík, fulltrúa U-listans í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem hann gagnrýnir fyrirhugaða Hvammsvirkjun.

Greint var frá í dag að öll leyfi fyrir virkjuninni væru komin í höfn.

Á sveitarstjórnarfundi í dag lagði Axel fram bókun þar sem hann, sem sveitarstjórnarmaður, tekur sjálfstæða og skýra afstöðu og hafnar umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

„Fyrirhuguð Hvammsvirkjun mun hafa veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og landslag. Öllum ætti að vera löngu ljóst, að tjónið og skaðinn sem Hvammsvirkjun mun valda á náttúru og samfélagi verður aldrei bætt,“ segir í bókuninni.

Ekki í samræmi við lög

Þá hafnar hann heimild Umhverfisstofnunnar til breytingar á vatnshloti Þjórsár og telur hann hana ekki í samræmi við lög og reglur.

„Hún ber það með sér að áhrifamati er hliðrað til, svo að heimild verði gefin út. Með þeim hætti er farið í kringum lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Óljóst er með öllu hvort nokkurt skilyrða 18. gr. laga 36/2011 um stjórn vatnamála sé í raun uppfyllt. Almannahagsmunir og raforkuöryggi gegna mikilvægu hlutverki í heimildinni. Hins vegar hafa ekki verið sett viðmið fullnægjandi raforkuöryggis.

Almannahagsmunir hafa hvorki verið skilgreindir í raforkulögum né lögum um stjórn vatnamála. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilgangur framkvæmdanna og almannahagsmunir vegi á nokkurn hátt þyngra en hagur náttúrunnar, þ.e. að umhverfismarkmið náist. Þess vegna er ekki hægt að nota almannahagsmuni né raforkuöryggi til að heimila breytingu á vatnshloti því hvorugu er fyrir að fara. Hins vegar er það gert í þessari heimild Umhverfisstofnunar.“

Eru að samþykkja að sitja uppi með skaðann

Þá segir hann tilgang framkvæmdanna vera enn óljósan auk þess sem óljóst er hvort orkuskipti séu yfir höfuð raunverulegur tilgangur virkjunarinnar.

Segir hann náttúruleg gildi eiga sér litla von gegn fjárhagslegum og mannhverfum gildum.

„Með því að samþykkja framkvæmdina þá er sveitarstjórn að samþykkja það að sitja uppi með skaðann þar sem óvissar mótvægisaðgerðir eru ekki sannreyndar. Skaðinn er hins vegar ljós.

Sveitarstjórnarmönnum ber í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum. Hér undir eru líka hagsmunir komandi kynslóða, eins og lög mæla fyrir um. Þeim er ekki borgið með óafturkræfum ákvörðunum sem skerða valfrelsi kynslóða til framtíðar,“ segir enn fremur í bókuninni.

Siðferðisleg skylda að spilla ekki sveitinni

Segir Axel að barátta almennings hafi í 20 ár staðið gegn þeim sjónarmiðum og því valdi sem vill Hvammsvirkjun.

„Við fimm í sveitarstjórn erum sem hlekkur á langri keðju fólks í þessari sveit og þessu sveitarfélagi. Það er beinlínis siðferðislega skylda sem hvílir á okkur að spilla ekki sveitinni. Það er okkar að umgangast hana með þeim hætti að komandi kynslóðir megi og njóta lífs í nægtum hér í sveit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert