Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að honum finnist Vinstri græn (VG) ekki hafa skilið eftir sig gott bú í matvælaráðuneytinu.
Morgunblaðið greindi frá því í dag að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, hefði fengið Jón sem sérstakan ráðgjafa í matvælaráðuneytið.
Finnst þér VG skilja eftir sig gott bú í ráðuneytinu?
„Nei, í sjálfu sér finnst mér það ekki,“ svarar Jón í samtali við mbl.is.
Hann kveðst hafa heyrt í mönnum í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins sem heyra undir ráðuneytið, eins og til dæmis í landbúnaði, sjávarútvegi og garðyrkju.
„Það er alveg ljóst að það er á þeim bæjum verið að bíða eftir afgreiðslu mála og verið að reyna að koma einhverjum skoðunum á framfæri varðandi einhver mál og það er eitthvað sem við munum skoða og sjá hverju er hægt að bregðast við á skömmum tíma,“ segir Jón.
Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Bjarni að Jón yrði eins og aðstoðarmaður eða ráðgjafi sinn vegna ýmissa mála sem eru í stjórnsýslulegri meðferð í ráðuneytinu.
Hvalur hf. hefur sent umsókn um leyfi hvalveiða til matvælaráðuneytisins. Spurður hvort Jón hefði verið sérstaklega fenginn til að vinna í hvalveiðimálum svaraði Bjarni:
„Þetta er fyrst og fremst almennt verkefni vegna allra þeirra mála sem heyra undir ráðuneytið. Þau eru margvísleg, sum af stjórnsýslulegum toga og önnur geta verið dagsdagleg verkefni.“