Segist hafa neitað öruggu þingsæti

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki verða á framboðslistum annarra flokka þrátt fyrir boð um öruggt þingsæti.

Þetta segir Ásmundur í færslu á Facebook þar sem hann segir að það liggi ljóst fyrir að hann verði ekki á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar 30. nóvember næstkomandi.

Ásmundur, sem hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til 11 ára fékk ekki brautargengi trúnaðarmann í Suðurkjördæmi um síðustu helgi en hann sóttist eftir þriðja sæti á lista flokksins.

„Nú liggur fyrir að ég verð ekki á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember nk. Ég verð heldur ekki á öðrum framboðslistum, þrátt fyrir boð um örugg þingsæti. Eðlilega er ég þakklátur fyrir slík boð, af þeim er heiður og virðing fyrir því sem ég hef staðið fyrir,“ segir Ásmundur.

Kenni engum um

Hann segir pólitísk uppgjör og endir sé á hans ábyrgð.

„Ég stóð sjálfur við stjórnvölin og valdi leiðina, ég kenni engum um og þakka fyrir þann tíma sem ég átti á Alþingi Íslendinga. Ég tel að þingið verði fátækara ef menn og konur með minn bakgrunn, reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu fái ekki brautargengi til að endurspegla samfélagið okkar í þingsal,“ segir Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert