Sigþóra vill 4. sætið í Reykjavík suður

Sigþóra vill skella sér í landsmálin.
Sigþóra vill skella sér í landsmálin. mbl.is/Hari

Sigþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og stofnandi Bergsins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.

Frá þessu greinir hún á facebook.

„Hjarta mitt hefur alltaf slegið með Samfylkingunni enda jafnaðarmaður inn að beini. Síðustu ár hef ég unnið þrotlaus að uppbyggingu Bergsins og að geðheilbrigðismálum ungs fólks. Sjálfsvígsforvarnir eru mér einnig hjartans mál,“ skrifar hún.

Hún kveðst hafa fengið pólitíska útrás í bæjarstjórn Seltjarnarness, sem sé skemmtilegt starf og gefi færi á að hafa áhrif á nærumhverfið.

Telur að 4. sæti gæti orðið baráttusæti

Hún segir þó að henni hafi lengi langað til að hafa áhrif á stærri vettvangi en á sveitarstjórnarstiginu og því hafi hún ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti í Reykjavík suður, sem hún segir að gæti orðið baráttusæti.

„Fyrsta verkefnið verður kosningabaráttan og ég hlakka til að vera með frábærum hópi Samfylkingarfólks og tala við fólk út um allt um hvernig við viljum vinna að bættu samfélagi, enda erum við með skýra sýn til framtíðar,“ skrifar hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert