Skýringar á sýkingu gætu legið fyrir í næstu viku

Sóttvarnarlæknir vísar fólki á ráðleggingar Matvælaeftirlitsins um meðferð og eldun …
Sóttvarnarlæknir vísar fólki á ráðleggingar Matvælaeftirlitsins um meðferð og eldun kjöts. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir segir að vænta megi niðurstaðna í næstu viku úr sýnatöku heilbrigðiseftirlitsins á matvælum frá leikskólanum Mánagarði sem gætu verið orsök E. coli smita meðal leikskólabarnanna.

Hún sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri ekki ólíklegt að leikskólabörnin sem greinst hafi með E.coli smit hafi sýkst í gegnum matvælin. Hún sagði hakk eitt af þeim matvælum sem verið væri að skoða í tengslum við smitið.

Kjöt, grænmeti og ávextir til skoðunar

Barnaspítali Hringsins hefur sinnt 27 börnum með einkenni smitsins. Fjögur liggja á spítala, þar af tvö alvarlega veik.

Soffía Emelía Bragadóttir, leikskólastjóri Mánagarðs, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að eftirlitið hafi tekið með sér kjöt, grænmeti og ávexti.

Þegar blaðamaður náði tali af Guðrúnu kvaðst hún ekki vera með upplýsingar fyrir framan sig um hvaða matvæli hafi verið tekin, en staðfesti að verið væri að skoða það sem Soffía nefndi. 

Þurfi að finna sömu bakteríuna

Hún segir verkefni heilbrigðiseftirlitsins vandasamt og að ganga þurfi alveg úr skugga um að finnist baktería í matvælunum og að það sé sama bakterían og olli smitunum.

„Þú getur fundið bakteríu í kjötinu eða grænmetinu en það er kannski ekki það sem var að valda veikindum.“

Hún segir bakteríur hafa fundist í íslensku kjöti, bæði lambakjöti og nautakjöti. Hún segir að árið 2019 hafi fundist bakteríur í um 20% af íslensku lambakjöti og nautakjöti.

„... en ef steikur eru steiktar vel og hamborgarar grillaðir í gegn þá á allt þetta að drepast,“ segir hún en að ekki megi endilega rekja smitin til lítils eldaðs kjöts.

Hún vísar enn fremur fólki á ráðleggingar Matvælastofnunar um meðferð og eldun kjöts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert