„Snýst að einhverju leyti um persónulegar aðstæður fólks“

Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri.
Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Án þess að tjá sig um einstök mál þá reynum við að greiða götur dómþola þegar þeir ljúka afplánun,“ segir Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri.

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, segist hafa varað við hættu af tveimur mönnum sem tengjast alvarlegum atvikum undanfarið.

Annar þeirra er grunaður um nauðgun og líkamsárás og hinn um manndráp en báðir mennirnir höfðu lokið afplánum í fangelsi og metnir sem hættulegir með mikla þjónustuþörf.

„Yfirleitt gengur vel að greiða götur þessara aðila en stundum skortir úrræði og aðstæður manna er mismunandi. Þetta snýst að einhverju leyti um persónulegar aðstæður fólks og þær eru auðvitað mismunandi,“ segir Birgir, sem nýlega tók við starfi fangelsismálastjóra í stað Pál Winkels sem fór í ársleyfi þann 1. október.

Hann segir að fólk í þessari stöðu hafi mismunandi bakland og stuðningsnet. Sumir séu einstæðingar sem eru kannski búnir að brenna allar brýr að baki sér.

„Yfirleitt reynum við að gera eitthvað og koma einhverjum tengslum við kannski félagsþjónustu, heilbrigðiskerfið eða þess háttar. Það er mikill vilji til þess að gera það,“ segir Birgir.

Afstaða leggur áherslu á að stjórnvöld verði að axla ábyrgð sína á öryggi samfélagsins og tryggja að úrræði séu til staðar fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. 

Birgir tekur undir það og segir að bæta verði úr úrræðum fyrir einstaklinga sem losna úr fangelsi en þurfi sértækan stuðning til að tryggja öryggi sitt og alls samfélagins.  

„Þetta má bæta alveg tvímælalaust,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert