Var nýsloppinn úr fangelsi

Maðurinn var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. nóvember.
Maðurinn var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður á fertugsaldri sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær vegna rannsóknar á andláti móður sinnar í íbúð fjölbýlishúss í Breiðholti í fyrrakvöld er samkvæmt heimildum mbl.is nýsloppinn úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóm fyrir ofbeldi gegn móður sinni.

Maðurinn losnaði úr fangelsi í september en hann var metinn sakhæfur. 

Gert að sæta öryggisgæslu 2006

Maðurinn var ákærður árið 2006 fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn í bakið. Hann var metinn ósakhæfur en fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að á verknaðastundu hafi hann verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum. Manninum var gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ákært hafi verið fyrir tilraun til manndráps en til vara fyrir stórfellda líkamsárás. Ákærði játaði að hafa stungið föður sinn með hnífi í bak eftir að hafa lent í orðaskaki og átökum við hann. 

Játaði að hafa stungið föður sinn með hnífi

Samkvæmt vottorði læknis munaði mjög litlu að hnífurinn lenti í lunga föðurins. Læknirinn kvað áverka þann sem faðirinn hlaut ekki hafa verið lífhættulegan þótt árásir með eggvopni á bol geti alltaf verið hættulegar. Ákærði játaði að hafa stungið föður sinn með hnífi í bak eftir að hafa lent í orðaskaki og átökum við hann.

Ákærði bar sjálfur fyrir dómi að hann hefði orðið föður sínum ofsareiður og hrópað að honum að hann skyldi drepa hann. Hann kvaðst hafa hlaupið inn í eldhús og  reynt að stinga föður sinn í magann með hnífnum, en faðir hans snúið sér við og hnífurinn lent í baki hans. Faðir hans bar hins vegar fyrir dómi að þegar hann varð þess áskynja að ákærði hefði í hyggju að beita hnífi, hefði hann flúið undan ákærða og hefði þá fengið stungu í bakið.

Í dómnum var vísað til framburðar geðlæknis og langvarandi alvarlegra geðrænna veikinda mannsins, sem og fíknivanda hans. Honum var gert að greiða föður sínum 400 þúsund í miskabætur en fram kemur í dómnum að árásin hafi verið hrottafengin og tilefnislaus og tilviljun hafi ráðið því að brotaþoli komst lífs af.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert