Vill ríkisstjórn myndaða út frá miðjunni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við mbl.is um könnun …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við mbl.is um könnun Prósents. mbl.is/Ólafur Árdal

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að fylgi flokksins í könnun Prósents sé í takti við þá stemningu sem hún finni fyrir í samfélaginu. Hún vill að næsta ríkisstjórn verði mynduð út frá miðjunni. 

„Maður er að finna fyrir jákvæðni, meðbyr og ákalli fólks um breytingar. Að næsta ríkisstjórn verði þannig að hún fari strax í verkin og ég skynja að fólk er í ríkari mæli að treysta Viðreisn til þeirra verka,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is.

Viðreisn mælist með 15% fylgi í könnun Prósents, sem unnin er fyrir Morgunblaðið og mbl.is, og er með þriðja mesta fylgið á eftir Samfylkingunni og Miðflokknum.

Vextir og verðbólga skipta mestu máli

Fimm vikur eru þar til landsmenn ganga að kjörborðinu og Þorgerður segir að fylgistölur flokkanna muni væntanlega sveiflast upp og niður fram að því.

Hún segir að Viðreisn hafi lagt áherslu á það að ná niður vöxtum og verðbólgu, ábyrgð í ríkisfjármálum, ná niður biðlistum og bæta líðan fólks.

„Við höfum verið að fara víða um landið. Ég hef staðið í Kringlunni, Firðinum og víðar og það er þetta sem fólk er að tala fyrst og fremst við okkur um. Það eru vextir, verðbólga og húsnæði. Síðan biðlistar, hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu,“ segir Þorgerður.

Ekki byrjuð að teikna upp stjórnarsamstarf

Ef flokkurinn fengi 15% atkvæða þá væri hann í lykilstöðu til að fara í ríkisstjórn.

Hún kveðst ekki vera farin að teikna upp ríkisstjórn heldur sé hún núna aðeins að vinna að því að ná í þetta fylgi til að komast í ríkisstjórn.

Ekki hafi reynst farsælt fyrir þjóðina að „vera með jaðrana í ríkisstjórn“ en fráfarandi ríkisstjórn samanstendur af Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum og Framsókn.

„Ég vil gjarnan sjá ríkisstjórnina myndaða út frá miðjunni og út frá því að þeir flokkar sem eru hugmyndafræðilega nærri hver öðrum byrji að tala saman. En það þarf ríkisstjórn sem hefur þetta hugrekki sem þarf til að fara í alls konar mál,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert