Birgir Ármannsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa ekki aftur kost á sér í komandi þingkosningum. Birgir hefur setið á þingi frá árinu 2003.
Frá þessu greinir hann á facebook.
„Hér er um að ræða persónulega ákvörðun, sem vissulega hefur verið að brjótast um í mér lengi, en ég hef fundið það sterklega að undanförnu að ég væri tilbúinn til að breyta um vettvang eftir að hafa setið á Alþingi í meira en 21 ár og gegnt embætti forseta Alþingis undanfarin þrjú ár,“ skrifar Birgir í færslu á facebook.
Birgir skipaði þriðja sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu kosningum.
Hann kveðst hafa fundið fyrir miklum velvilja og fengið hvatningu til að halda áfram. „Þannig hef ég fundið stuðning af hálfu bæði kjörnefndar og náinna samstarfsmanna við að ég sæti áfram í þriðja sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður,“ skrifar Birgir.
„Mér þykir afar vænt um þennan stuðning en tel engu að síður rétt fyrir mig að taka þessa ákvörðun,“ skrifar Birgir einnig og bætir við:
„Ég mun að sjálfsögðu berjast áfram með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni og verð áfram tilbúinn að verða vinum mínum og samherjum innan handar í stjórnmálastarfinu eftir því sem þörf krefur.“