Handtekinn með eggvopn á veitingastað

171 mál voru bókuð í kerfi lögreglu.
171 mál voru bókuð í kerfi lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um einstakling sem var með eggvopn á veitingastað. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. 

Ungur drengur var einnig handtekinn fyrir að hafa veist að lögreglumönnum. Málið er unnið með barnavernd sökum aldurs, að því er segir í dagbók lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 5 í gærmorgun til klukkan 19 í gærkvöld. 

Lögreglustöð eitt, sem sinnir útköllum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem bifreið var ekið á hús. Ökumaðurinn er óslasaður en bifreiðin tjónuð. Barst henni einnig tilkynning um líkamsárás í heimahúsi. 

Ölvuð og óvelkomin

Tilkynnt var um ölvaðan einstakling til vandræða í félagshúsnæði félagssamtaka. Lögregla vísaði honum burt. Einnig var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem svaf ölvunarsvefni í stigahúsi fyrirtækis. Lögreglan vakti hann og hélt hann áfram sína leið. 

Lögreglustöð fjögur sinnti útkallinu en hún sinnir verkefnum í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Úlfarsárdal, Grafarvogi, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. 

Þar var einnig tilkynnt um eld í bifreið sem slökkviliðið sá um að slökkva. 

Talsvert var um innbrot í gær. Brotist var inn í fimm verslanir og einn leikskóla en enginn var handtekinn vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert