Sverrir Einar Eiríksson, fyrrverandi eigandi skemmtistaðarins B5, hefur lagt fram formlega kæru á hendur lögregluþjóns fyrir rangar sakargiftir. Áður hafði lögregluþjónninn kært Sverri fyrir að tálma störf lögreglu og veitast að sér með ofbeldi.
Málið varðar handtöku Sverris þann 17. september 2023 er lögreglumenn mættu á skemmtistaðinn B við Bankastræti 5 þar sem þeir voru að sinna eftirliti.
Í bréfi ríkissaksóknara um málið kemur fram að lögreglumennirnir hafi sakað Sverri um að meina sér inngöngu að staðnum og tálmað þar með störf lögreglu, en Sverrir hafi ekki talið lögreglumennina hafa heimild til eftirlits inni á skemmtistaðnum.
Var Sverrir sakaður um að hafa staðið í vegi fyrir lögreglu og kemur fram í lögregluskýrslum að hann hafi síðar veist að lögregluþjóni nr. 2020 með því að ýta að öxl sinni eða bringu í hann með þeim afleiðingum að hann missti jafnvægi.
Kvaðst Sverrir hins vegar einungis hafa hallað sér að lögreglumanninum til að heyra betur hvað hann væri að segja sökum hávaða inni á staðnum.
Í bréfi ríkissaksóknara kemur fram að ekki leiki vafi á því að lögreglumennirnir hafi haft heimild til eftirlits um kvöldið. Hins vegar sjáist á upptöku úr búkmyndavélum lögreglumannanna, sem voru á meðal gagna málsins, að eftir um mínútna rökræður við varðstjóra hafi Sverrir stigið til hliðar eftir að lögreglumenn ýttu við honum og ekki staðið í vegi fyrir þeim.
Kemur þá einnig fram að á upptökunum sjáist Sverrir halla sér að lögreglumanni nr. 2020 með hendur í vösum en ekki sé unnt að greina hvort snerting hafi orðið þeirra á milli. Viðbrögð lögreglumannanna bentu þó til þess að snerting hafi átt sér stað. Kemur fram að Sverrir hafi ekki útilokað það en bar þó fyrir sig að það hefði þá ekki verið með ásetningi.
Með hliðsjón af gögnum málsins var ekki talið að það sem kom fram væri nægilegt eða líklegt til sakfellis og var því málið fellt niður.
„Eftir að ríkissaksóknari felldi málið niður þann 19. október 2024, með ítarlegum rökstuðningi, hef ég lagt fram formlega kæru á hendur lögreglumanni nr. 2020 fyrir rangar sakargiftir,“ segir Sverrir í tilkynningu til fjölmiðla.
„Ég hef einnig kvartað yfir störfum þessa lögreglumanns til NEL [Nefnd um eftirlit með lögreglu] og sent bréf til þingmanna þar sem ég hvet til þess að nefndin verði efld til að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. Það er nauðsynlegt að borgarar þurfi ekki að óttast óréttmætar aðgerðir lögreglu.“
Telur Sverrir að hegðun lögreglumannsins brjóti gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um rangar sakargiftir, falskan vitnisburð og misnotkun á valdi.
Þá kemur fram að Sverrir íhugi nú einnig að leggja fram frekari kærur vegna annarra aðgerða lögreglu, þar á meðal vegna innsiglunar á skemmtistaðnum Exit sem var framkvæmd í apríl.
„Þetta ferli hefur verið mjög þungbært og það er erfitt að skilja hvers vegna lögreglan hefur beitt mig svona harkalegum aðgerðum. Ég krefst þess að tekið verði á valdníðslu og óréttlæti í starfsemi lögreglu og að stjórnvöld tryggi aukið eftirlit með störfum hennar til að koma í veg fyrir að slík mál endurtaki sig.“