Kristrún: „Hann er þarna í stuðningshlutverki“

Kristrún segir að oddvitar flokksins verði í forgrunni þegar kemur …
Kristrún segir að oddvitar flokksins verði í forgrunni þegar kemur að myndun ríkisstjórnar. Samsett mynd

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, verður ekki efstur á blaði til að verða ráðherra komist Samfylkingin í ríkisstjórn heldur verða oddvitar í forgrunni. Samfylkingin hyggst hrista upp í hlutunum og gömlu pólitíkinni.

Þetta kemur fram í máli Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við ætlum að keyra þessa kosningabaráttu í gang og ná þjóðinni saman um breytingar,“ segir Kristrún en í dag voru framboðslistar flokksins í Reykjavík samþykktir og þar með er flokkurinn kominn með framboðslista í öllum kjördæmum.

„Munum standa undir því“

„Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að vera með sameinaðan flokk og fólk sem verður samstíga við að leiða breytingar í landinu og þetta eru auðvitað firnasterkir framboðslistar í Reykjavík,“ segir hún spurð um listana í Reykjavík.

Kristrún leiðir í Reykja­vík norður og Jó­hann Páll Jó­hanns­son leiðir í Reykja­vík suður.

„Við erum auðvitað að bjóða okkur fram til að leiða breytingar, hrista upp í hlutunum og gömlu pólitíkinni. Allir sem hafa fylgst með Samfylkingunni síðastliðin tvö ár vita vel að við munum standa undir því,“ segir hún og bætir við að á listanum sé fólk úr öllum áttum.

Gerir ekki tilkall í ráðherrastól

Dag­ur B. Eggerts­son, fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri, verður í öðru sæti á lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík norður.

„Mér finnst gott hjá fyrrverandi borgarstjóra að koma inn á þeim forsendum sem hann gerir. Hann er að koma inn á nýjan vettvang, hann fer í annað sæti listans. Hann er þarna í stuðningshlutverki og gerir ekki tilkall til ráðherrastóls en hann verður öflugur þingmaður fyrir Reykvíkinga og landið allt ef við náum góðri kosningu,“ segir Kristrún.

Er það samt ekki líklegt að hann verði ráðherra komist Samfylkingin í ríkisstjórn?

„Ég ætla ekkert að vera að segja nákvæmlega til um hvernig ríkisstjórnin verði mynduð en ég held að hann muni reynast mjög vel í okkar þingflokki. Við þurfum líka að vera með reynslumikið fólk inn í þinginu,“ segir Kristrún.

Litið til oddvita við myndun ríkisstjórnar

Hún segir flokkinn vera með öfluga oddvita út um land allt sem verði fyrst og fremst litið til þegar kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

„Þetta fólk mun allt auðvitað vera í forgrunni þegar kemur að myndun ríkisstjórnar og oddvitarnir endurspegla þá hverjir eru í forgrunni þegar kemur að myndun ríkisstjórnar. Dagur kemur inn með reynslu, hann hefur verið í forystu í borgarmálunum en hann er núna að stíga til baka. Það er alveg skýrt.

Hann er á nýjum vettvangi, hann tekur annað sæti á listanum, hann gerir ekki tilkall til þess að verða ráðherra og mér finnst það góð lending,“ segir hún.

Kristrún ítrekar að Dagur muni reynast verðandi þingflokki Samfylkingarinnar vel.

Frambjóðendur koma inn á forsendum formanns og flokksins

„Allir þeir sem koma inn í þetta verkefni, þeir eru að gera það á forsendum formanns, á forsendum forystunnar og flokksins og munu vinna samkvæmt okkar plani.“

Sjálfstæðismenn og aðrir hægrimenn segja að þar sem Dagur sé kominn í framboð þá sé það skýr vísbending um það að Samfylkingin muni reyna að mynda eins konar ríkisstjórnarmeirihluta og er við völd í Reykjavík.

Innt eftir viðbrögðum við þessu segir Kristrún:

„Þessar kosningar snúast ekki um Reykjavík, þær snúast um landið allt og þessar kosningar snúast fyrst og fremst um framtíð Íslands og við erum með plan fyrir Ísland. Hluti af þeim breytingum sem við ætlum að leiða er að búa til ný og betri kerfi í húsnæðismálum, í skipulagsmálum, í leikskólamálum sem gagnast öllum sveitarfélögum. Þannig það er verkefnið,“ segir Kristrún.

Stefna á sigur í öllum kjördæmum

Samfylkingin er búin að kynna lista í öllum kjördæmum og Kristrún segir aðspurð að flokkurinn stefni á sigur í hverju einasta kjördæmi.

Hún segir skipta máli að horfa á heildarmyndina.

„Við þurfum að vera sterkust í öllum kjördæmum af því hugmyndin er auðvitað að fylkja fólkinu í landinu þvert á kjördæmi, þvert á kynslóðir, þvert á aldur og þvert á stéttir á bak við þessar breytingar. Við erum fyrst og fremst að fókusa á málin sem skipta mestu máli í daglegu lífi,“ segir Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka