Síðan að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti fyrr í dag á facebook að hann myndi ekki gefa kost á sér í komandi þingkosningum hafa á annað hundrað manns skrifað ummæli undir færsluna hans.
Vinir og kollegar þakka honum fyrir gott samstarf síðustu ár en Birgir hefur verið á þingi frá árinu 2003. Kveðjurnar berast frá fólki úr öllum áttum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skrifar:
„Það hefur verið alveg einstakt og forréttindi að starfa með þér í stjórnmálunum frá því ég byrjaði og sérstaklega síðustu átta ár á þingi. Ég mun sakna þín en veit líka að þú verður okkur innan handar og með í baráttunni fram undan.“
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar:
„Ég græt en virði þessa ákvörðun þína kæri vinur. Mikið óskaplega munum við sakna þín og allrar þinnar þekkingar, reynslu og visku. Það er væntanlega eins gott að eitthvert okkar lesi þingskaparlögin við tækifæri. Hafðu hjartans þökk fyrir yndislegt samstarf og vináttu elsku Biggi minn.“
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, skrifar einnig færslu þar sem hann þakkar Birgi fyrir frábært samstarf.
„Hjartans þakkir fyrir gott samstarf. Óska þér og fjölskyldunni alls hins besta í næsta kafla,“ skrifar Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Óttarr Proppé, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að tíðindin séu óvænt en þakkar fyrir ánægjulegt samstarf alla tíð. „Njóttu frelsisins,“ skrifar Óttar.
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness og fyrrverandi þingmaður, skrifar:
„Kæri Birgir. Það er mikill missir af þér en um leið óska ég þér til hamingju með þessa ákvörðun. Takk fyrir samstarfið og störf þín. Góð kveðja.“
Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar, þakkar Birgi fyrir alla hans þjónustu í þágu lands og þjóðar. Birgir var sjálfur formaður Heimdallar árin 1989-1991.
„Þó svo að maður sé kannski ekki gamall þá hefur manni aldrei fundist neinn sæma hlutverki forseta Alþingis jafn vel og þú. Það verður mikill missir af þér á þingi. Gangi þér vel í hverju því sem þú tekur þér fyrir hendur,“ skrifar Júlíus.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þakkar Birgi fyrir samstarfið og segir að það hafi reynst henni ómetanlegt að geta leitað til hans um allt á milli himins og jarðar.
Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, þakkar Birgir fyrir drjúgt starf þjóðinni til heilla.
Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, þakkar Birgi fyrir ánægjulegt samstarf og segir mikla eftirsjá af honum.
Auk þess að hafa starfað sem forseti Alþingis þá var Birgir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 2017–2021.
Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands og fyrrverandi þingmaður, skrifar:
„Kæri vinur. Ég skil ákvörðun þína og virði þótt ég hefði svo gjarnan viljað sjá þig gefa kost á þér áfram. Þú hefur staðið þig einkar vel og verið sjálfum þér og þínum til mikils sóma allt frá því við tókum saman sæti á Alþingi árið 2003. Þitt sæti verður vandfyllt.“
Bjarni Jónsson, þingmaður utan flokka, skrifar:
„Þakkir fyrir gott og heilt samstarf Birgir. Góðan vinskap höfum við átt í gegnum árin og munum áfram eiga.“
Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnmálin séu fátækari án Birgis.
„Framlag þitt er ómetanlegt. Það verða ekki einungis sjálfstæðismenn sem munu sakna þín. Virðing fyrir störfum þínum nær langt út fyrir okkar raðir,“ skrifar hann.
Þingmenn Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson og Sigmar Guðmundsson, þakka honum fyrir gott samstarf.
Hanna Katrín Friðriksson:
„Kærar þakkir fyrir gott samstarf! Gangi þér allt að sólu á nýjum vettvangi. Ps. Verður kaka?“ spyr Hanna.