Langalangamman kveikti áhugann

Elín de Ruyter bjó á Íslandi í tvö ár nýlega …
Elín de Ruyter bjó á Íslandi í tvö ár nýlega þar sem hún skrifaði bók sína Mother of Light.

Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn langt á milli blaðamanns og viðmælanda eins og kvöld eitt þegar spjallað var í myndsímtali yfir hálfan hnöttinn, alla leið til Ástralíu. Þar var nýr dagur að rísa og rithöfundurinn Elín de Ruyter í morgunkaffinu sínu. Heilir tíu tímar skilja að tímabelti Reykjavíkur og Brisbane þar sem hin íslenska Elín býr, en þangað flutti hún barnung með fjölskyldu sinni.

Elín hefur óbilandi áhuga á ættfræði og öllu sem tengist Íslandi. Hún fékk sérstakan áhuga á ljósmæðrum sem uppi voru á seinni hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu, en langalangamma hennar Guðrún Þórðardóttir var einmitt ljósmóðir á þeim tíma í Súgandafirði. Eftir dvöl á Íslandi og mikið grúsk notaði Elín efniviðinn sem hún hafði safnað til að skrifa skáldsöguna Mother of Light, eða Ljósmóðir eins og bókin gæti heitið á íslensku.

Héldum í alla íslensku siðina

Elín birtist glaðleg á skjánum og talar nánast lýtalausa íslensku þrátt fyrir að hafa búið erlendis mestalla ævi, en foreldrar hennar, Ómar Sveinbjörnsson og Jóhanna Jóhannesdóttir, slepptu aldrei taki af móðurmálinu. Móður hennar var sérstaklega umhugað um að tala íslensku á heimilinu og halda fast í íslenska siði.

„Við erum fimm systur; ég er næstelst. Við elstu erum fæddar á Íslandi, ein á Nýja-Sjálandi og ein í Ástralíu. Mamma var alltaf dugleg að tala íslensku við okkur en pabbi talaði aðeins meira ensku. Við skildum alveg íslensku en vildum oft svara á ensku,“ segir Elín.

„Málið er þarna en ekki alveg 100%,“ segir Elín og brosir.

Fannst þér þú alltaf vera Íslendingur?

„Já, algjörlega. Mamma saknaði alltaf Íslands og var með heimþrá í tuttugu ár. Hana langaði alltaf aftur heim. Við héldum í alla íslensku siðina og héldum til að mynda alltaf jólin á aðfangadag og mamma var alltaf í miklu sambandi við fólkið sitt á Íslandi. Mér fannst mjög erfitt þegar ég var lítil að hafa ekki ömmu og afa og frænkur og frændur nálægt og engin fjölskylduboð eins og hjá vinum mínum,“ segir hún.

Langalangamma var ljósmóðir

Elín dvaldi á Íslandi í sex mánuði þegar hún var nítján ára og hafði þá ekki komið til Íslands síðan hún var þriggja. 

„Þetta var ótrúlega mikið ævintýri og má segja að þessi tími sé einn af hápunktum lífs míns. Ég fékk loksins að hitta fólkið mitt og vera í húsinu hennar ömmu en ég hafði oft séð myndir og myndbönd frá heimili hennar. Það var svo skrítið að vera svo allt í einu komin þangað eftir að ég hafði í raun dýrkað fólkið mitt lengi úr fjarlægð,“ segir hún.

„Ég öðlaðist mikið sjálfstæði hér þar sem ég þurfti að fara að tala íslensku, að vinna og svo ferðaðist ég mikið um landið. Hér fór ég á sveitaböll og kynntist mörgum. Fólkið mitt lagði áherslu á að ég talaði íslensku og eftir þrjá mánuði var mig farið að dreyma á íslensku og vissi þá að ég væri komin vel inn í tungumálið.“

Elín hefur setið mörg ættfræðinámskeið og segist enn alltaf vera að grúska í ættfræðinni.

„Þegar ég kom aftur heim eftir ævintýrið á Íslandi vissi ég ekki hvað ég vildi gera, eða vinna við, og var að spá í að verða ljósmóðir. Pabbi sagði mér þá að langalangamma mín Guðrún Þórðardóttir hefði verið ljósmóðir. Hún átti fjórtán börn og ég varð strax að fá að vita meira um hana. Ég grúskaði mikið en fann ekki svo mikið um hana sjálfa, heldur frekar um manninn hennar, Kristján Albertsson. Hann var hreppstjóri og það hafði mikið verið skrifað um hann. Ég grúskaði mikið í ljósmæðrasögum,“ segir Elín.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að skrifa og langaði svo að skrifa sögu um ljósmóður eftir að ég hafði lesið allar þessar sögur og rannsakað langalangömmu mína og fleiri ljósmæður,“ segir hún.

„Ég vissi ekki nógu mikið um Guðrúnu langalangömmu mína þannig að mig langaði að bæta við sögum hinna ljósmæðranna líka og bjó því til nýjan karakter innblásinn af öllum þessum konum.“ 

Höfðu aldrei séð snjó

Árið 2020, það eftirminnilega kórónuveiruár, fluttu Elín og fjölskyldan til Íslands. Elín settist þá niður við skriftir.

„Við ákváðum að búa á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár og ég vildi skrifa bókina á Íslandi. Það tók átján mánuði að skrifa hana,“ segir hún, en þau enduðu á að búa hér í tvö ár.

Fjölskyldan naut þess mjög að búa á Íslandi í tvö …
Fjölskyldan naut þess mjög að búa á Íslandi í tvö ár, frá 2020 til 2022. Mark, Cora, Ella, Lucas, Elín og Svala æfðu sig öll í íslensku og gengu krakkarnir hér í skóla.

„Þetta var ótrúlega gaman og mikil tilbreyting fyrir krakkana. Þau kunnu enga íslensku þegar þau komu en eftir sex mánuði voru þau farin að geta skilið og talað töluvert. Það er svo ótrúlegt hvað krakkar eru fljótir að læra. Sú yngsta talaði málið best, enda var minna talað við hana á ensku en eldri krakkana,“ segir hún.

„Þetta var mikið ævintýri fyrir krakkana enda er landslagið hér svo ólíkt því sem er í Ástralíu og þau höfðu aldrei áður séð snjó. Þeim fannst skrítið að fara í skólann í myrkri en samt bara gaman.“

Þekkti þorpið árið 1880

Skáldsaga Elínar, Mother of Light, kom út á síðasta ári en Elín gaf hana sjálf út. Bókin er tileinkuð Guðrúnu langalangömmunni, og öðrum ljósmæðrum.

„Bókin fæst í nokkrum bókabúðum í Ástralíu en er aðallega seld á Amazon. Ég hef reynt að gefa hana út á Íslandi en það hefur verið erfitt að fá útgefanda og svo þarf þá líka að þýða hana,“ segir hún.

„Sagan gerist á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Ég hef fengið góð viðbrögð við bókinni og mörgum finnst gaman að sögunni og hafa sagst vilja framhald. Ég er byrjuð að skrifa aðra bók sem fjallar um næstu kynslóð og er áfram um ljósmæður. Ég þarf að koma aftur til Íslands og leggjast í frekari rannsóknir,“ segir Elín en hún kom einmitt hingað ein árið 2017 til að grúska og dvaldi þá í Súgandafirði.

Fjölskyldan ferðaðist mikið um Vestfirði, enda á Elín ættir að …
Fjölskyldan ferðaðist mikið um Vestfirði, enda á Elín ættir að rekja til Súgandafjarðar. Hér eru börnin við Dynjanda.

„Ég skildi börnin eftir hjá manninum og fór með vinkonu í þessa rannsóknarferð. Svo þegar við fluttum hingað öll fórum við í fimm daga ferð til Súgandafjarðar og gengum mikið þar um. Ég hef líka lesið margar bækur sem tengjast sögu Súgandafjarðar og hef skoðað manntöl og tímarit á skjalasafninu. Fyrst þegar ég kom til Suðureyrar fannst mér svo skrítið að koma til nútímaþorps því ég var svo lengi búin að „lifa“ á árinu 1880 á Suðureyri,“ segir hún og hlær.

„Ég þekkti þorpið árið 1880 en ekki 2020!“

Ítarlegt viðtal er við Elínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert