„Þá liggur beinast við að strika hann út“

Skjáskot af skilaboðunum fylgja fréttinni.
Skjáskot af skilaboðunum fylgja fréttinni. Samsett mynd

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sendi skilaboð á mann þar sem hún sagði að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, yrði ekki ráðherra. Hún segir að það liggi beinast við fyrir viðkomandi að strika Dag út í kjörklefanum ef honum hugnast hann ekki. 

Skilaboðin sendir hún á mann sem hefur líklega lýst yfir óánægju með það að Dagur yrði í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður. Skilaboðin eru ófölsuð samkvæmt heimildum mbl.is.

Skilaboðin í heild sinni:

„Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins, Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn. Í stórum breiðum flokki sem S er og þarf að vera til að leiða raunverulega breytingar veljast alltaf inn einhverjir einstaklingar sem kjósendur hafa skiptar skipanir á [skoðanir]. Þannig hefur lýðræðið alltaf virkað,“ skrifar Kristrún og heldur áfram. 

„En ég skil vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykjavík norður þar sem ég er oddviti og hann er í öðru sæti þá liggur beinast við að strika hann út í kjörklefanum. Ég bið þig að líta á heildarmyndina, áherslurnar sem ég hef barist fyrir undanfarin ár í húsnæðis, efnahags og heilbrigðismálum. Auðlindamálum.“

„Það eru áherslurnar sem munu einkenna í S í ríkisstjórn, ekki hvað borgin hefur gert. Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni. Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar í samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það - hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni,“ skrifar hún og heldur áfram:

„Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert. Það hefur orðið gífurleg endurnýjun á listum S heilt yfir! Nú reynir á okkur í S að sýna og sanna hvar við stöndum og við séum traustsins verð á næstu vikum. Hvet þig til að fylgjast með og gefa þessu tækifæri.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Skjáskotið sem birtist á Facebook-hópi íbúa í Grafarvogi.
Skjáskotið sem birtist á Facebook-hópi íbúa í Grafarvogi. Skjáskot
Hér má sjá seinni hluta skilaboðanna.
Hér má sjá seinni hluta skilaboðanna. Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert