Urgur í Grafarvogi með þéttingu

Þéttingarsvæði Hér getur að líta eitt þeirra svæða í Grafarvogi …
Þéttingarsvæði Hér getur að líta eitt þeirra svæða í Grafarvogi þar sem borgaryfirvöld áforma þéttingu byggðar og útsýni sem íbúar verða af. Ljósmynd/Aðsend

Á sjötta hundrað manns hafa skilað inn athugasemdum í skipulagsgátt við áform borgaryfirvalda um mikla þéttingu byggðar í Grafarvogi og á fjórða þúsund manns hafa undirritað mótmæli við þeim áformum. Þar af eru yfir tvö þúsund undirskriftir undir almenn mótmæli við uppbyggingu á þéttingarreitum í Grafarvogi og um þrettán hundruð manns hafa mótmælt uppbyggingu í Sóleyjarrima sérstaklega.

Þetta segir Ástrós Björk Viðarsdóttir í samtali við Morgunblaðið, en hún er búsett í Víkurhverfi í Grafarvogi.

Hún segir mikla óánægju með þéttingaráform Reykjavíkurborgar, bæði í hverfinu sjálfu sem og í Keldnalandi þar sem til stendur að reisa byggð fyrir 17.000 manns sem mun nær tvöfalda íbúafjöldann í hverfinu.

Af þeim sem gert hafa athugasemdir við þéttingaráformin segir hún að yfir tvö hundruð séu íbúar í Víkurhverfi. „Í Víkurhverfi, sem er þó langt frá því að vera stærsta hverfið í Grafarvogi, telst okkur til að séu um 490 íbúðir. Í þessu samhengi má hafa í huga að það að skila inn umsögn í skipulagsgátt er nokkuð sem fæstir hafa gert og segir það til um hversu óánægjan er mikil,“ segir Ástrós.

„Í raun má horfa á þessar tölur sem skoðanakönnun og það er ljóst að íbúar í Víkurhverfi eru mótfallnir þessum framkvæmdum og vilja að borgin hætti umsvifalaust við þessar fyrirætlanir,“ segir hún.

„Nú virðist Einar Þorsteinsson borgarstjóri vera kominn í stríð við okkur Grafarvogsbúa ef marka má viðtal við hann í Bítinu á Bylgjunni í vikunni, þar sem hann sakar okkur um lygar í þessu máli og að við séum málpípa Sjálfstæðisflokksins sem sé aðeins á atkvæðaveiðum. Hann sakar þar einnig formann Íbúasamtaka Grafarvogs um að vera einhver reið kona og sýnir þar enn og aftur hroka í samskiptum, líkt og hann gerði fyrir skemmstu í tengslum við málefni kennara,“ segir Ástrós.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert