„Þetta virðist hafa verið þannig að einhver sem var á flöskuborði hafi rekið blys í úðara. Hvort að það hafi verið viljaverk eða slys liggur ennþá milli hluta, við vitum það ekki.“
Þetta segir Ólafur Alexander Ólafsson, einn eigenda skemmtistaðarins Auto, í samtali við mbl.is spurður um orsök þess að vatn flæddi inni á skemmtistaðnum í nótt.
mbl.is greindi frá því í morgun að dælubíll hafi verið sendur á skemmtistaðinn.
Ólafur segir að einungis einn úðari hafi farið í gang. Hann hafi úðað vatni í 15 til 20 mínútur á meðan gengið var úr skugga um að enginn eldur hefði komið upp.
„Svo var smá vesen að skrúfa fyrir vatnið inni í húsi.“
Aðspurður segir Ólafur að það eigi eftir að koma í ljós hvort og þá hvert umfang tjónsins er.
„Slökkviliðið mætti og sogaði upp vatnið. Fólkið sem vinnur hjá okkur vann algjört þrekvirki í gær. Núna eru loftblásarar úti um allt og því bjargað sem hægt er að bjarga,“ segir Ólafur.
„Það leiðinlegasta við þetta í gær er að það var fullt af fólki sem var búið að hlakka til að fara í hrekkjavökupartý og því var slaufað frekar snemma,“ segir Ólafur og tekur fram að úðarinn fór í gang á meðan tónlistarmaðurinn Flóni var að spila.
Úðarinn fór í gang um eittleytið í nótt en staðurinn opnar klukkan ellefu.
Verður staðurinn opinn næstu helgi?
„Jújú, við ætlum að opna á föstudaginn. Það kemur ekki annað til greina.“