Feðgarnir Ólafur Þór Ólafsson og Júlíus Viggó Ólafsson eru báðir á framboðslista fyrir komandi þingkosningarnar, en þó fyrir sitthvorn flokkinn og í sitthvoru kjördæminu.
Ólafur Þór skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi á sama tíma og sonur hans Júlíus skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
„Mér finnst það nú bara svolítið skemmtilegt,“ segir Ólafur, spurður hvað honum finnist um það að vera í framboði á sama tíma og sonurinn.
„Það er ánægjulegt að drengurinn skuli njóta trausts hjá samflokksfólki sínu til að taka sæti á framboðslista í Reykjavík, þó svo að ég sjálfur hefði nú kosið að hann hefði fundið sinn pólitíska farveg annars staðar en á hægri væng stjórnmálanna,“ segir hann.
Ólafur hefur sjálfur marga fjöruna sopið í stjórnmálum en hann er fyrrverandi sveitarstjóri Tálknafjarðar og fyrrverandi oddviti Samfylkingarinnar í Sandgerði. Júlíus hefur látið til sín taka í stjórnmálum og er núna formaður Heimdallar.
„Ég fæ áhugann á stjórnmálum frá honum pabba, þó svo að skoðanir okkar séu ólíkar. Það er náttúrulega mjög fyndið á sinn hátt að við finnum okkur nú saman í framboði fyrir sitthvorn flokkinn,” segir Júlíus í samtali við mbl.is.
Ólafur hefur lengi verið virkur í Samfylkingunni og fékk hann Júlíus til að taka þátt snemma í stjórnmálum.
Hann sendi blaðamanni mynd af þeim feðgunum á kosningaviðburði Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ árið 2013, þegar Júlíus var 12 ára gamall, þar sem Júlíus og hann skemmtu gestum.
Fór eitthvað úrskeiðis í uppeldinu, hvernig endaði hann í Sjálfstæðisflokknum alinn upp í Samfylkingunni?
„Einhverjum finnst kannski að ég hafi brugðist í hlutverki mínu sem faðir en mér líður nú samt ekki þannig. Ég hef reynt að kenna öllum börnunum mínum gagnrýna hugsun og að vera sjálfstæð. Það sé mikilvægt að afla sér þekkingar og taka ákvarðanir út frá sinni eigin sannfæringu. Það hefur Júlíus Viggó einmitt gert.
Ég get því ekki annað en verið stoltur af þeim árangri sem hann hefur náð á sinni pólitísku vegferð þó að sannfæringin hafi leitt hann af þeirri braut sem faðir, afi og langafi stigu í stjórnmálum,“ segir Ólafur.
Spurður hvort að nú sé komin vinaleg samkeppni þeirra á milli um það hvort framboðið fái meira fylgi segir Júlíus:
„Það er auðvitað stefnan að fá sem mest fylgi í okkar kjördæmi, og meira helst enn aðrir flokkar hvort sem það er í mínu kjördæmi eða öðrum. En ég held alltaf með pabba, þó svo að ég voni að flokknum hans gangi ekkert of vel.“