Ekki verður ráðist í breytingar sem lúta að auknu gagnsæi í nýju frumvarpi á lögum um endurgreiðslu vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun. Hins vegar er lagt til samstarf Rannís og Skattsins og aukið eftirlit með endurgreiðslukerfinu.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is.
Áður hafði Sigurður Ingi sagt að hann héldi ekki að fyrirkomulag endurgreiðsla væri eðlilegt í núverandi mynd.
mbl.is fjallaði fyrr á árinu um að engar upplýsingar fengjust uppgefnar um hverjir fengju meirihluta þeirrar endurgreiðslu sem ríkið veitir vegna rannsókna og þróunar ár hvert.
Á síðustu sex árum hafi aðeins verið upplýst um þá sem þáðu endurgreiðslustyrki upp á 17,2 milljarða af þeim 37,4 milljörðum sem veittir hafa verið.
„Mér finnst alveg koma vel til greina að það þyrfti að setja sérstaka lagaheimild sem myndi heimila Skattinum birtingu þessara upplýsinga sem er ekkert óalgengt þegar um styrki er að ræða,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is fyrr á þessu ári.
Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem birtist fyrr í mánuðinum bendir ekki til þess að gagnsæi verði aukið.
Sigurður Ingi sagði að gögnin væru engan veginn nægilega góð.
„Hluti af þessum tillögum er aukið samstarf milli Rannís og Skattsins, aukið eftirlit og ákveðnar breytingar sem munu skila okkur að við höfum betri stjórn á því sem er að gerast,“ segir Sigurður Ingi og bætir jafnframt við að hugtökin rannsókn og þróun verði skilgreind frekar.
Sigurður Ingi sagði í samtali við mbl.is fyrr á árinu að það kæmi vel til greina að setja sérstaka lagaheimild sem myndi heimila Skattinum að birta upplýsingarnar.
Jafnframt sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að hún tæki undir ábendingar Skattsins um að tryggja aukið gagnsæi og betra eftirlit.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í samtali við mbl.is fyrr á árinu að samtökin væru jákvæð gagnvart endurskoðun á kerfinu. Kerfið hafi skipt sköpum í því að byggja upp hugverkaiðnaðinn hérlendis.