Tilviljanakennd kynni kveikja að fyrirtæki

Steinunn Kristín Hafsteinsdóttir (t.v.) og Agnes Hólm Gunnarsdóttir kynntust á …
Steinunn Kristín Hafsteinsdóttir (t.v.) og Agnes Hólm Gunnarsdóttir kynntust á ferðalagi í fyrra en reka nú fyrirtækið Afburðaleiðtogann saman. Þær uppgötvuðu sameiginlega ástríðu fyrir umbótum og almennri vellíðan fólks og létu skeika að sköpuðu. Myndin er tekin á mannauðsdeginum í Hörpu 4. október. Ljósmynd/Aðsend

„Við kynntumst á ferðalagi í fyrra, vorum báðar einar á ferð og ákváðum að verja tíma saman,“ segir Steinunn Kristín Hafsteinsdóttir jógakennari í samtali við mbl.is, en Steinunn hefur aflað sér kennsluréttinda í nokkrum ólíkum undirgreinum jóga og leggur nú stund á nám í svokölluðu áfallajóga.

Ferðafélaginn sem hún vísar til er Agnes Hólm Gunnarsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og höfundur bókanna Afburðaárangur og Afburðastjórnun, en hún hefur enn fremur numið framleiðslutæknifræði í Danmörku og á að baki töluverða starfsreynslu við gæðastjórnun, meðal annars hjá verkfræðistofunni Verkís. Þá kennir Agnes ýmsa stjórnunaráfanga á háskólastigi.

Steinunn hefur einnig komið víða við á vinnumarkaði, unnið við stjórnun og gæðastýringu auk þess að hafa starfsréttindi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Með eldmóð fyrir umbótum

Afurð þessara kynna þeirra Agnesar á ferðalaginu hefur nú litið dagsins ljós í formi heils fyrirtækis, Afburðaleiðtogans, en grunnhugmyndin þar að baki gengur út á að vellíðan, umhyggja, hugarró og skilvirkni eigi heima á öllum vinnustöðum, skólum og heimilum. „Þetta er eitthvað sem hvert einasta mannsbarn á rétt á,“ segir Steinunn.

„Við komumst að því að við höfum báðar mikinn eldmóð fyrir umbótum, þróun og hvernig við getum vaxið bæði í starfi og einkalífi,“ segir Agnes frá, en það var hún sem átti hugmyndina að því að þær stöllur tækju höndum saman og ýttu Afburðaleiðtoganum úr vör. Hugmyndin hafi verið að setja upp vinnustofu og blanda saman tveimur gerólíkum – en þó svo glettilega líkum að þeirra sögn – afburðastjórnun og jóga.

„Nálgunin okkar byggist á rannsóknum Agnesar um afburðalíkön og afburðafyrirtæki og í raun erum við að nota æðruleysisbænina í því hvernig við nálgumst viðfangsefnið,“ segir Steinunn og útskýrir tenginguna við æðruleysisbænina með einfaldri samlíkingu: „Sumu getum við stjórnað með betri tækni í stjórnunaraðferðum og öðru getum við ekki stjórnað á beinan hátt og þurfum að finna leiðir innra með okkur til að takast á við það, þrátt fyrir að ytra umhverfi sé óbreytt.“

Korter í kulnun

Agnes tekur við orðinu og kveður þær Steinunni sannfærðar um að hefðbundið píramídaskipulag stjórnunar virki hreinlega ekki vel – hins vegar sé það æðri tilgangur einstaklinga og vinnustaða sem skipti hinu raunverulega höfuðmáli.

„Umhyggja og sjálfsþekking er eitthvað sem á heima í hæfniskröfum stjórnenda og fyrirskipanir eða hvers kyns eftirlit er algerlega úrelt stjórnunaraðferð. Við trúum á samstarf, sýn með æðri tilgang, sigursæld sem lýsir sér í því að fara glaður heim eftir vinnudaginn en ekki úrvinda og korter í kulnun,“ segir iðnaðarverkfræðingurinn sem marga fjöruna hefur sopið hvað stjórnun áhrærir.

„Nálgunin okkar byggist á rannsóknum Agnesar um afburðalíkön og afburðafyrirtæki …
„Nálgunin okkar byggist á rannsóknum Agnesar um afburðalíkön og afburðafyrirtæki og í raun erum við að nota æðruleysisbænina í því hvernig við nálgumst viðfangsefnið,“ segir Steinunn. Ljósmynd/Aðsend

Nefnir Steinunn sem dæmi að heitið á aðalvinnustofunni sem þær hafi boðið upp á fyrir einstaklinga og starfsmannahópa sé einmitt „Sýn, samstarf, sigursæld og sálarkonfekt“, fjögur s sem dragi fram höfuðskepnur og innihald stofunnar og loka-s-ið, sálarkonfektið, vísi þar með til þeirra aðferða sem þær Agnes fái að láni hjá jógafræðunum til að byggja upp sjálfið og getuna til að takast á við þá hluti sem við fáum ekki breytt – æðruleysistengingin skýtur kollinum upp á ný.

„Við erum að nota jógafræðin til að tengja okkur við okkar innri mann, við notumst við öndun, hugleiðslu og samhæfingu. Við notumst einnig við vegvísa innan jóga til að hjálpa okkur að vera meira í takt við okkar innri mann, að horfast í augu við það sem má laga í okkar fari og vera betur meðvituð um það sem er gott í fari okkar,“ heldur Steinunn áfram – eða hennar innri maður, blaðamaður þorir ekki að fullyrða um hvort þeirra sé raunverulegur viðmælandi eftir þessa yfirlýsingu.

Með vinnustofu hjá lögreglunni

Agnes segir þær fyrst og fremst styðjast við vinnustofur og skemmtilega viðburði þar sem þátttakendur hafi nóg að gera við að vinna með nýstárlega blöndu af afburðastjórnun og jógafræðum.

„Nálgunin er allt nema hefðbundin, gleði og gaman er í fyrirrúmi og við tryggjum að allir fari út fyrir þægindarammann með skemmtilegum æfingum sem fá okkur til að hugsa út fyrir kassann og hjálpa okkur að taka skref í rétta átt,“ segir hún.

Afburðastjórnun, bók Agnesar og Helga Þórs Ingasonar, kom út árið …
Afburðastjórnun, bók Agnesar og Helga Þórs Ingasonar, kom út árið 2017 en eftir þau liggur einnig bókin Afburðaárangur frá 2007. Skjáskot/Heimasíða Forlagsins

Þær Steinunn sammælast um að fyrirtækið sé öðruvísi auk þess að vera nýtt. „Við fórum á fullt í febrúar á þessu ári við að búa til kennsluefni fyrir vinnustofuna og héldum fyrstu opnu vinnustofuna í Kríunesi í apríl,“ segir Agnes af upphafinu og Steinunn bætir því við að stjórnendur ólíkra vinnustaða hafi sýnt starfsemi þeirra áhuga.

„Við höfum fengið fyrirspurnir frá mismunandi atvinnustarfsemi en opinber fyrirtæki hafa verið að sýna vinnustofum okkar mikinn áhuga og höfum við meðal annars haldið vinnustofu fyrir stjórnendur lögregluembættisins á Suðurnesjum. Við erum mjög stoltar af því að fá að aðstoða þessa mikilvægu starfsmannahópa þar sem álagið er mikið og alltaf er tækifæri til að gera daginn auðveldari bæði fyrir okkur sjálf og fyrir samferðafólkið,“ segir Steinunn og andi hugsjóna hennar logar í hverju orði.

Og er starfsemi ykkar og kennsla þá í raun bara fyrir fólk flest?

Agnes verður fyrir svörum. „Þetta er fyrir alla sem vilja bæta líf sitt og verða leiðtogar í sínu lífi eða eru leiðtogar á sínum vinnustað. Þátttakendur þurfa allir að gera sjálfsmat með tilliti til eigin leiðtogahæfileika, eigin eldmóðs, þess menningarumhverfis sem þeir vinna í og lengi má þar telja, en allt er þetta gert með það markmið í huga að fólk fái skýrari sýn á eigin styrk- og veikleika og geti skilgreint aðgerðaáætlun byggða á því. Þá gerist það einnig að fólk áttar sig á því að það er algerlega á rangri hillu og þarf að gera róttækar breytingar á aðstæðum sínum,“ segir gæðastjórinn gamalreyndi.

Auðveldara en margur heldur

Spurðar út í markaðssetningu segjast þær Steinunn mest notast við samfélagsmiðlana þar sem þær deili heimatilbúnum myndskeiðum og efni.

„Við tókum þátt í mannauðsdeginum sem var haldinn í Hörpunni 4. október. Þar vorum við með bás til að kynna starfsemi okkar og deildum bæklingum til gesta á ráðstefnunni. Við erum að byggja upp vefsíðuna Afburðaleiðtoginn heim þar sem hægt er að lesa um vinsælustu vinnustofurnar okkar og meira nýstárlegt er á leiðinni þangað inn,“ segir Steinunn af markaðssetningu nýs fyrirtækis.

Hve mikil vinna er þetta, eruð þið alveg á haus?

„Við erum báðar að sinna öðrum störfum í hlutastarfi samhliða,“ svarar Agnes sem sjálf er framkvæmdastjóri Verkefnastjórnunarfélags Íslands og sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi með áherslu á innleiðingu stefnu, verkefnastjórnun og ferlaumbætur.

„Þetta er fyrir alla sem vilja bæta líf sitt og …
„Þetta er fyrir alla sem vilja bæta líf sitt og verða leiðtogar í sínu lífi eða eru leiðtogar á sínum vinnustað. Þátttakendur þurfa allir að gera sjálfsmat með tilliti til eigin leiðtogahæfileika, eigin eldmóðs, þess menningarumhverfis sem þeir vinna í og lengi má þar telja,“ segir Agnes. Ljósmynd/Aðsend

Steinunn vinnur hins vegar í dagvistun fyrir aldraða ásamt því að vera sjálfstætt starfandi jógakennari og heldur úti námskeiðum hvort tveggja á Selfossi og á Hellu en ofan í kaupið hyggur hún á markþjálfanám eftir áramót. Hún á lokaorðin.

„Okkar framtíðarsýn og ástríða er að geta dreift boðskapnum sem víðast. Við brennum báðar fyrir umbótum og vellíðan fólks, bæði innan fyrirtækja og í einkalífinu. Það er í raun og veru mun auðveldara en margir halda að vera leiðtogar í sínu eigin lífi,“ er samdóma niðurstaða þeirra Agnesar Hólm Gunnarsdóttur og Steinunnar Kristínar Hafsteinsdóttur sem fara nú mikinn í nýrri starfsemi sinni innan fyrirtækisins Afburðaleiðtogans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert