„Annaðhvort þetta eða vændi“

Dóttirin í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Dóttirin í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Karítas

Mæðgur voru síðastar til þess að gefa skýrslutökur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, á fyrsta degi aðalmeðferðar Sólheimajökulsmálsins. Dóttirin sagðist hafa fundist hún hafa engra kosta völ en að leiðast í fíkniefnasölu. „Annaðhvort það eða vændi,“ sagði hún og bætti við að hún hefði valið skárri kostinn.

Málið sem þær eru ákærðar í er umfangsmikið og flókið. Sak­born­ing­ar máls­ins eru 15 tals­ins. Þar á meðal eru mæðgurnar sem eru báðar ákærðar fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Þá er dóttirin einnig ákærð fyrir skipulagða brotastarfsemi.

Móðirin er 63 ára gömul og dóttirin 31 árs. Sú síðarnefnda var á undan í skýrslutöku fyrir dóminum.

Ósamræmi í framburðinum

Í september árið 2023 voru rúm 700 grömm af kókaíni, rúm 700 grömm af amfetamíni og tæplega 50 grömm af metamfetamín kristöllum gerð upptæk á heimili móðurinnar í Breiðholti.

Dóttirin játaði að hafa átt fíkniefnin. Hún sagði í byrjun skýrslutökunnar að þau hefðu hins vegar ekki verið til dreifingar og sölu. Hún orðaði það þannig að hún geymdi þau fyrir móður sína á heimili hennar, en er dómari bað hana að útskýra það nánar neitaði hún að tjá sig.

Dóttirin sagðist síðan hafa fengið að geyma nokkra hluti á heimilinu og að móðirin hefði ekki vitað hvað það var. Hún sagðist ekki muna hvenær hún fór með fíkniefnin þangað.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari spurði hana hvort móðirin vissi að hún væri að geyma fíkniefnin á heimilinu og svaraði dóttirin ákveðið neitandi. Hann spurði hvort hún væri alveg viss og svaraði hún játandi.

Hún sagðist ekki kannast við pökkunarvélar sem fundust á heimilinu, en lögregla telur að fíkniefnum hafi verið pakkað á heimilinu.

Gerði við bílinn eftir þörfum

Dóttirin sagðist þekkja Jón Inga Sveinsson, höfuðpaur glæpahópsins, og að hún hefði verið í samskiptum við hann á samskiptaforritinu Signal.

Þá sagðist hún þekkja Pétur Þór Elíasson, sem talinn er hafa verið hægri hönd Jóns Inga. Dóttirin sagði hann vera bifvélavirkjann hennar og að hann hafi gert við bíl hennar eftir þörfum.

Í skýrslutökunni kom fram að hún hefði keypt Range Rover bifreið með bróður sínum.

Konan kannast við eða vera vinkona annarra meðákærðu. Hún neitar þó að hafa tekið þátt í skipulagðri brotastarfsemi.

Jón Ingi er hér til vinstri á myndinni.
Jón Ingi er hér til vinstri á myndinni. mbl.is/Karítas

„Fyrirtækið borgar“

Í gögnum málsins kemur fram að nokkrir sakborninganna hafi borðað saman á veitingastað í miðbænum í apríl 2023.

„Fyrirtækið borgar,“ segir í skilaboðum sem dóttirin sendi á konu sem er einnig sakborningur í málinu.

Þá fundust myndir í síma hennar af nokkrum sakborninganna frá veitingastaðnum, meðal annars af Pétri Þór.

Daginn eftir voru konurnar aftur í samskiptum á Signal.

„Skil ekki hvað þessir menn eru að ráða okkur í vinnu,” segir önnur konan og hin svarar: „Nei ég er ekki stolt af mér. Ég opnaði eina pakkningu þegar ég kom heim.”

Dóttirin sagðist ekki muna eftir þessu og að hún hefði verið mjög drukkin umrætt kvöld.

Starfsemi glæpahópsins á, samkvæmt ákæru, að hafa átt sér stað á árinu 2023 þar til í apríl á þessu ári.

Dóttirin er hér til hægri.
Dóttirin er hér til hægri. mbl.is/Karítas

Uppeldisfaðirinn dó í fangaklefa

Verjandi hennar spurði hana út í skýrslutökur sem hún fór í hjá lögreglu. Þær voru þrjár talsins.

Aðdraganda einnar þeirra lýsti konan þannig að hún hefði verið í bíltúr, lögreglan hefði rifið hana út úr bílnum, beint byssu að hnakka hennar og hún verið flutt í fangaklefa.

Þá hafi lögreglan sagt við hana að ef hún tjáði sig ekki yrði hún flutt á Hólmsheiði og barn hennar tekið af henni. Hún sagðist ekki hafa fengið að hafa verjanda viðstaddan í skýrslutökunni.

Dóttirin greindi frá því að uppeldisfaðir hennar hefði látist í fangaklefa fyrir þremur árum og því ætti hún mjög erfitt með að vera í slíkum klefa. Hún sagðist vera tilbúin til að segja hvað sem er til að losna úr haldi.

Stofnar ekki lífi sínu í hættu

Um hagi sína sagði konan að hún ætti eina dóttur sem hún væri ein að ala upp.

Spurð af verjanda sínum um fíkniefnin sem fundust á heimili móðurinnar sagði dóttirin að hún hefði verið orðin „ótrúlega þreytt af því að vinna af sér rassgatið“ til þess að sjá fyrir sér og barninu sínu.

„Annað hvort þetta eða vændi,“ sagði konan og átti þá við fíkniefnasölu og sagði það vera skárri kostinn. Þá væri hún að minnsta kosti ekki að stofna lífi sínu í hættu.

Spurði ekkert nánar

Skýrslutaka yfir móðurinni fór fram í gegnum fjarfundarbúnað en hún er að eigin sögn mikill sjúklingur.

Hún sagðist dvelja mikið erlendis og hafi meðal annars hafa verið erlendis í mánuð er lögregla gerði fíkniefnin upptæk í september 2023.

Móðirin sagðist hafa vitað að dóttir hennar geymdi dót hjá sér.

Hún var ítrekað spurð hvort hún vissi að um væri að ræða fíkniefni og magn þeirra. Hún sagðist hafa grunað að það væri „eitthvað“ og meinti þá kannski nokkrar pillur og smá gras. Hana hefði hins vegar ekki órað fyrir því að um svo mikið hefði verið að ræða. Hún hefði aldrei spurt nánar út í dótið, né séð það með eigin augum.

Spurð hvort hún hafi einhvern tímann fengið greitt fyrir að geyma fíkniefni svaraði móðirin neitandi.

Þá sagðist hún ekki hafa vitað af neinum pökkunarvélum heima hjá sér áður en hún fór erlendis.

Fékk heimsóknir frá vinunum

Móðirin sagðist hafa notað Signal. Hún mundi hins vegar ekki hvern hún var í samskiptum við. Þá gat hún ekki svarað fyrir af hverju skilaboðum hafði verið eytt úr síma hennar er lögregla skoðaði hann.

Í málsgögnum eru skilaboð á milli móðurinnar og annars sakbornings sem segist þurfa sækja fjórar krukkur. Lögregla telur að glæpahópurinn hafi geymt amfetamín í krukkum. Móðirin sagðist ekki muna eftir þeim samskiptum.

Móðirin sagðist hafa fengið heimsóknir frá syni sínum og dóttur og vinum þeirra, meðal annars vinum sem eru sakborningar í málinu.

Spurð hvort aðrir en hún og börnin hennar hefðu aðgang að heimilinu í Breiðholti sagði konan svo geta hafa verið. Hún hafi ekki verið mikið heima hjá sér.

Móðirin sagðist að lokum lítið muna eftir yfirheyrslu lögreglu. Hún hafi verið útkeyrð og ekki í góðu ástandi.

Skýrslutökur yfir sakborningum málsins halda áfram á morgun áður en vitni verða leidd fyrir dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert