Aukin ofbeldishegðun fyrirséð

Berglind Gunnarsdóttir Strandberg
Berglind Gunnarsdóttir Strandberg

Aukinn hegðunarvandi ungmenna er fyrirséður að mati Berglindar Gunnarsdóttur Strandberg framkvæmdastjóra Foreldrahúss.

Hún segir að síðustu ár hafi vísbendingar verið uppi í samfélaginu um aukna ofbeldishegðun barna. Berglind segist hafa bent á vandamálið árum saman en lítið hafi verið gert til að sporna við þróuninni.

Berglind segir að ofbeldi sé orðið eðlilegri hluti af menningarheimi ungmenna. Það hafi meðal annars birst með auknum hópslagsmálum sem eru jafnvel skipulögð fram í tímann; hvar verður tekist á, hverjir, hver ætlar að taka það upp og svo framvegis. Þá segir Berglind að slagsmálin fari í kjölfarið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

„Þegar svona fer af stað og það er ekki gripið nógu fast inn í þá heldur það áfram eins og hefur gerst.“

Stórfelldum líkamsárásum fjölgað um 52 prósent

Undanfarna mánuði hefur aukin ofbeldishegðun ungmenna verið til umræðu. Dæmi eru um alvarleg ofbeldisbrot af hálfu ungmenna og sömuleiðis hefur vopnaburður ungmenna farið vaxandi.

Í ágúst á þessu ári lést 17 ára stúlka eftir hnífstunguárás á menningarnótt en 16 ára piltur er grunaður um verknaðinn. Í haust bárust einnig fréttir af því að börn allt niður í sex ára mættu með hníf í skólann.

Í skýrslu sem embætti ríkislögreglustjóra gaf út í sumar er varpað ljósi á að frá árinu 2007 hafi meiriháttar eða stórfelldar líkamsárásir á meðal barna aldrei verið fleiri en nú.

Frá árinu 2020 til ársins 2023 fjölgaði meiriháttar eða stórfelldum líkamsárásum af hálfu barna úr 36 í 69 sem þýðir 52% fjölgun.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að heildarfjöldi ofbeldisbrota ungmenna hafi aukist frá árinu 2019 úr 157 í 285 árið 2023. Tilkynningum um ofbeldisbrot hjá aldurshópnum 13 til 15 ára hefur sömuleiðis fjölgað.

Berglind segir að flest ungmenni sem hafa leitað til Foreldrahúss síðastliðið ár séu fórnarlömb ofbeldis, gerendur eða hafi horft á mikið af ofbeldisfullu efni.

Þá finnst þeim flestum eðlilegt að bera á sér hníf til þess að geta varið sig fyrir mögulegu ofbeldi.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert